Penninn fer af stað og byrjar að því er virðist á tilviljunarkenndu kroti. Honum er sjaldan eða aldrei lyft frá blaðinu – hann tekur stjórnina og er leyft að ráða för.
Einhversstaðar djúpt í höfði höfundar leynist samt óljós hugmynd eða minning um andlit, sem kannski hefur verið þar lengi. Hann stúderar fólk, fylgist með úr fjarlægð, rýnir í svipbrigði, stundum á kaffihúsum eins og þessu … og í samráði við pennann framkallast þessi andlit, skapsveiflur og svipbrigði. Í sumum tilvikum, vitandi sem óafvitandi, sem tilbrigði við andlit höfundarins sjálfs.
Jón Ágúst Pálmason útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1991. Námið tók hann í tveimur lotum með 13 ára millibili, 1972–5 og 1988–91. Á árunum 1983–88 nam hann einnig málun og teiknun hjá Eiríki Smith.
Jón Ágúst hefur unnið sem hönnunarstjóri, myndskreytir og hönnuður síðastliðin 24 ár fyrir fjölda auglýsingastofa. Hann starfaði jafnframt sem listgreinakennari í grunnskóla í níu ár og hefur haldið ýmis námskeið í teiknun og málun, meðal annars við Listaháskóla Íslands.
Sýning hans, ANDLIT, stendur yfir á Mokka til septemberloka eða sem hér segir:
22. ágúst opið frá kl. 9.00 til 23.00 – Menningarnótt – 23. ágúst til 30. september, er opið daglega frá kl. 9.00 til 18.30
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.