Nú stendur yfir sýningin Einangrun en á henni má sjá verk eftir Jónu Hlíf Halldórsdóttur í Kunstschlager, Rauðarárstíg 1. Jóna Hlíf er vel þekkt í listalífi borgarinnar en hún er ekki einungis ötull listamaður heldur starfar hún líka sem formaður Samband íslenskra listamanna.
Um sýninguna segir:
Á sýningunni má sjá ný pappírsverk eftir Jónu Hlíf sem byggja á útskurði, en eru án texta eða nokkurra mótífa. Einnig má þar finna útfærslu á útskornum verkum sem Jóna Hlíf sýndi á samsýningu í Munchen árið 2013, þar sem þrír kassar mynda einn samstæðan skúlptúr. Hluti sýningarinnar er innsetning úr bókum sem fengnar voru að lánir bókasafni sjúklinga úr Berklahæli.
Ég pikkaði í hana Jónu Hlíf og bað hana um að segja okkur eitthvað aðeins nánar um sýninguna.
Hvernig mynda þessir þrír kassar einn samstæðan skúlptúr?
Ég hef skorið út textan “ Það er ekkert sem vinnur á tímanum” á kassana sem bindur þá saman í eitt verk. Kassarnir innihalda allir spegla í botninum, sem kallast á við óendanleikann sem tíminn virðist svo sannarlega búa yfir. Kassarnir standa allir á þremum mjóum tréfótum sem myndar spennu á milli áhorfandans og verksins. Þeir virðast vera mjög valtir sem hefur áhrif á hvernig áhorfandinn athafnar sig í sýningarrýminu. Ég velti fyrir mér hvort það sé hægt að einangra tímann.
Afhverju bækur úr bókasafni sjúklinga af Berklahæli?
Því að þarna er merkileg saga úr fortíðinni sem virðist stundum svo gleymd. Hún snertir okkur samt öll og það sannaði sig þegar það kom eldri kona inn á sýninguna um seinustu helgi. Eftir að hún var búin að skoða sýninguna tók hún eina bókina og sagði mér að langafi hennar hefði skrifað þessa bók og gefið Berklaspítalanum bókina áritaða vegna þess að dóttir hans var fyrsta stúlkan sem var lögð þar inn.
Einangrunin er allsstaðar í kringum okkur, við getum ekki lifað án hennar og við þurfum líka að læra að lifa með henni.
Ég mæli með innliti sem fyrst því sýningin klárast nú um helgina en opið er alla daga, nema sunnudaga frá 15-18.
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.