Nú er nýliðið árið 2014 og því vel úr vegi að líta aðeins yfir sýningarhald síðasta árs. Að venju er af nógu að taka enda senan afskaplega virk og lífleg og hér opna fleiri sýningar í hverri viku og flestar eru þær bara ansi fínar.
En hér koma þó nokkrar sýningar sem undirritaðri þótti skara fram úr á liðnu ári og í engri sérstakri röð. Reyndar mætti listinn svo sem vera jafnvel lengri!
Lostastundin í Kunstschlager
Mjög hressandi samsýning myndlistarmanna sem unnu allir með erótíkina á einn eða annan hátt á sýningunni.
Jón Óskar Ný verk Listasafn Íslands.
Jón Óskar fyllti safnið af verkum og hreif með sér áhorfandan í sköpunargleði og látum. Frábær sýning!
(mynd Arnold Bjornsson)
“NOW GET TO WORK BITCH” eftir Steinunni Gunnlaugsdóttur.
Verkið finnst í Höggmyndagarði Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík á Nýlendugötu. Þar stendur það af sér storminn og segir okkur að drullast til vinnu. Sjá nánar hér: http://www.sackofstones.com/mannaudsmountain/
Varalitir í Hafnarborg
Litrík og hressandi sýning á málverkum ungra samtímalistamanna í stýringu Birtu Fróðadóttur.
Anna Líndal í Harbinger – samhengissafnið.
Harbinger gallerí opnaði í ár og mætir sterkt til leiks með afbragðs sýningar. Sýning Önnu Líndal var ekkert nema konfekt fyrir augun, stútfull af gersemum.
Sindri Leifsson og sýningin Saga í Kunstschlager
Sindri setti saman áhugaverða og fallega sýningu fyrir okkur á árinu. Nánar hér.
Æ ofaní æ í Nýló
Sýningunni var stýrt af þeim Ragnheiði Gestsdóttur og Markúsi Þór Andréssyni sem partur af Listahátíð í Reykjavík. Frábær sýning og kvikmyndin sem þarna var sýnd var virkilega skemmtileg (sjá stiklur úr mynd hér: https://vimeo.com/33776222)
Feneyjartvíæringurinn- Foundation í Hafnarhúsi
Katrín Sigurðardóttir – Verk Katrínar sem var framlag Íslands til Feneyjartvíæringsins var sett upp í Hafnarhúsinu í Janúar.
Listasafn Árnesinga – Snertipunktar
Anna Eyljólfsdóttir, Birgir Snæbjörn Birgisson, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson, Helgi Þorgils Friðjónsson, Ragnhildur Stefánsdóttir, Þórdís Alda Sigurðardóttir og Þuríður Sigurðardóttir í sýningarstjórn Margrétar Elísabetar Ólafsdóttur.
Svolítið stelpur vs. strákar sýning en gekk alveg virkilega vel upp.
Bömmer ársins er Myndlistarsjóður sem sífellt þarf að taka á sig niðurskurð með tilheyrandi leiðindum fyrir myndlistarfagið!
Bæ ársins: Menningarhúsið Skúrinn hætti starfsemi sinni með sýningu á verki Ingólfs Arnarsonar, það sést til 6. janúar á Hverfisgötu 42.
Hæ ársins: Gallerí Ekkisens opnaði með látum og virðist ætla að halda þeim látum áfram svo ég mæli með því að fylgjast vel með því á nýju ári.
Montnust er ég að sjálfsögðu af eigin stöffi (og sambýlingsins) sem opnaði í Janúar í fyrra og sjá má nánar HÉR en senan er lífleg líkt og áður hefur komið fram, árið var pakkfullt af frábærum sýningum í frábærum galleríum!
Ragnhildur Jóhanns myndlistarmaður býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima sem og erlendis síðan hún útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hún hefur komið að hinum ýmsu verkefnum tengdum listum svo sem sýningarstjórn og útgáfu bókverka auk þess sem hún situr í ritstjórn tímaritsins Endemi og sér um rekstur síðunnar VisualReykjavík.com sem fjallar um myndlistarlíf höfuðborgarsvæðisins.