Nú um helgina opnar spennandi myndlistarsýning í listasal Mosfellsbæjar þegar systurnar Sara og Svanhildur Vilbergsdætur opna sýningu sem tengist stórfjölskyldu þeirra en sýnt verður málverk sem byggir á blóðtengslunum.
Verk þeirra hingað til hafa verið eins og undraland þar sem óvæntir hlutir gerast. Þær nota t.d karaktera úr ævintýrum eins og Grímsbræðraævintýrunum, slúður úr blöðum og af netinu og allt er skreytt í ævintýralega litríka búninga en vinnustofa þeirra er á Korpúlfsstöðum.
Ólíkar en vinna saman sem ein
“Þessi samvinna okkar hófst fyrir tilviljun á menningarnótt fyrir þremur árum þegar önnur okkar hlóp undir bagga með hinni sem hafði tekið að sér að mála metersbút í 7 metra langan Íslands-trefil niður á höfn,” segir Sara.
“Ólíkar sem við erum, náðum við að tengja saman þarna og vinna eins og ein manneskja með fjórar hendur og tvö höfuð. Eftir þetta fórum við svo að hittast tvisvar í viku til að mála saman og þess á milli að kasta á milli okkar hugmyndum á netinu og í símtölum sem gátu teygt sig ansi langt á klukkunni. Þetta vatt svo uppá sig, engin leið að hætta eins og skáldið sagði”.
Mikil leynd hvíldi yfir stóra verkinu
“Í maí 2012 fengum við svo leigða gestavinnustofu á Fjóni í Danmörku og ákváðum að mála þar stóra fjölskyldumynd sem við höfðum verið byrjaðar að skissa upp nokkru áður. Það var meiningin að koma foreldrum okkar og öllum þeirra afkomendum fyrir í heljarinnar garðveislu í garði annarrar okkar. Við útveguðum okkur 6 fermetra strigabút og rúlluðum honum upp í plaströr sem við síðar komum fyrir í eldgamalli skíðatösku frá þeim tíma sem skíði voru mjög löng. Komumst svona hálfa leið með að mála myndina þarna úti og höfum síðan verið að klára hana smátt og smátt og nú má eiginlega segja að okkur finnist við að endingu hafa rúllað henni upp,” segir hún og hlær. “Núna erum við erð fara að sýna hana ásamt fleiri verkum í Listasal Mosfellsbæjar og þá er bara að sjá hvort fjölskyldumeðlimirnir 33 sem á myndinni eru staddir verða sáttir”.
Enginn hefur enn séð myndina
“Við vildum ekki hætta á að fá lögbann á sýninguna fyrirfram svo málverkinu hefur verið haldið mjög leyndu. Á sýningunni verða einnig tvö mynbönd sem Eiríksína Kr. Ásgrímsdóttir hefur klippt og unnið og sýnir annað þeirra tilurð stóru veislumyndarinnar en hitt tengist verki á sýningunni sem við unnum eftir heimkomu,” segir hún að lokum.
Sýningin opnar 31.ágúst 2013 og stendur til 20. sept, er í Listasal Mosfellsbæjar eins og fyrr segir en þú færð frekari upplýsingar HÉR.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.