Fatahönnunarkeppni Reykjavík Runway fór fram á fimmtudagskvöldið og fjölmennti áhugafólk um íslenska tísku í Hafnarhúsið.
Fatahönnuðurinn Harpa Einarsdóttir, sem hannar fatalínu sína undir nafninu Zizka, bar sigur úr býtum og fékk í verðlaun hálfa milljón og samning við Reykjavík Runway í eitt ár sem kemur til með að þjónusta hönnuðinn við að koma hönnun sinni á erlendan markað.
Fatamerkin Eygló, Shadow Creatures og Rosa-Bryndís sýndu einnig hönnun sýna en keppnin var unnin í samvinnu við Fatahönnunarfélag Íslands og Hugmyndahús háskólanna. Hljómsveitin Legend hitaði upp fyrir keppnina og tróð einnig upp í hléum en það eru þeir Krummi Björgvinsson og Halldór Björnsson sem skipa hljómsveitina.
Keppnin var stórskemmtileg og mikil stemmning skapaðist í salnum. Greinilegt að við íslendingar eigum mikla talenta þegar kemur að fatahönnun. Markmið Reykjavik Runway keppninnar er að gera þáttakendur tilbúna fyrir alþjóðlega markaðssetningu, og vinna með hönnuðum frá upphafi hönnunarferils og alla leið á erlendan markað. Fyrir utan peningana voru verðlaunin m.a að feta í fótspor Karls Lagerfeld og Manolo Blahnik með því að hanna útlit á Coke Light flösku.
Ljósmyndir: Díana Bjarnadóttir
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.