[youtube]https://youtu.be/dX8ySsKiRxQ[/youtube]
Alveg frá því ég komst á fullorðinsár hef ég haft mikinn áhuga á upplifun okkar (manneskjunnar) af eigin líkama og ekki síst því hvernig margir virðast hata sitt eintak, – Til dæmis af því hann samræmist ekki óljósum hugmyndum “fjöldans” um staðlað fegurðarmat. Útlit sem oftar en ekki er í svipuðum hlutföllum og líkami dúkkunnar Barbí.
Eins og flestir vita samt er Barbí blessunin þó bara dúkka. Og meira til, ef hún væri raunveruleg manneskja þá væri hún fötluð og á örorku fyrir lífstíð af því hún er með svo brengluð líkamshlutföll. Þetta vill samt eiginlega alltaf gleymast og áfram er gerður samanburður við þessa dúkku og konur sem komast nær því að líkjast henni en þú sjálf.
Absúrd vandamál
Bandaríska snyrtivörufyrirtækið Dove hefur síðustu 11 árin beint fókus að þessu vandamáli sem er vægast sagt absúrd. Það er að segja, í auglýsingaherferðum fyrir snyrtivörur sínar hafa þau einbeitt sér að því að fagna fjölbreyttum líkamsvexti og um leið reynt að afnema þessa þvælu sem hatrið, samanburðurinn og fyrirlitningin á eigin líkama er í raun. Þannig hafa þau reynt að koma því inn að fegurðarmat eigi að byggjast á sjálfsöryggi en ekki kvíða: “to create a world where beauty is a source of confidence and not anxiety.”
Dove hefur, í þessum tilgangi, framleitt ótal myndbönd, gert plaköt og bækur, haldið náttfatapartý, sett upp leiksýningu og meira að segja farið í skóla og haldið námskeið fyrir stelpur. Námskeið sem hafa skilað sér með góðum árangri.
Dove fer nú af stað með vitundarvakningu hér á landi sem fengið hefur nafnið SÖNN FEGURÐ (hér á Facebook).
Þáttakendur eru meðal annars þessar flottu og hugrökku íslensku stelpur sem lýsa eigin upplifunum af sundferðum í myndbandinu hér að ofan. Þær eru einlægar og æðislegar og verður þetta vonandi til þess að stöðlunum sé fleygt í ruslið sem fyrst og fleiri stelpur (og strákar) fari að elska líkamann sinn, hlúa að honum og næra og upplifa meira sjálfsöryggi, – algjörlega burtséð frá því hvað útlit þeirra kemst nálægt því að líkjast vandræðagemsanum henni Barbí! 😉
Það verður gaman að fylgjast með þessu átaki sem mun standa í heilt ár undir hasstagginu #sönnfegurð!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.