Það eru til ótal greinar og dæmi um þá skökku og lítillækkandi mynd sem stundum er sýnd af konum í fjölmiðlum og dægurmenningunni.
Bæði hvernig talað er um konur í fjölmiðlum eða hvernig við erum sýndar í markaðsefni, tónlistarmyndböndum, kvikmyndum og fleira efni sem almenningur hefur aðgang að. Miss Representation, samtökin sem gerðu kvikmyndina Miss Representation birtu í gær myndband sem sýnir hvernig fjallað hefur verið um konur í fjölmiðlum á árinu sem er að líða. Þar sem samtökin eru bandarísk er mestmegnis fjallað um bandaríska umfjöllun og þó að á Íslandi séu konur oft ekki kyngerðar á sama hátt og er gert í Bandaríkjunum opnar þetta myndband samt sem áður augu manns fyrir þeirri vinnu sem heimurinn þarf að halda áfram til að rétta hlut kvenna í fjölmiðlum í dag.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=NswJ4kO9uHc[/youtube]
Ég veit ekki með þig en ég er hrifin af því sem kemur fram í fyrri hlutanum en við eigum að heita nógu siðmenntuð, – og erum alltof upplýst, til að láta það viðgangast að einhver tali um og sýni konur á þann hátt sem gert er í seinni hluta þess! Að lögfræðingur segi virkilega í fréttatím um nauðgunarfórnarlamb:
“Ég er ekki að segja að hún hafi átt skilið að vera nauðgað, en…”. Að þingmenn og fréttamenn noti útlit, aldur og lygar og slúður um geðrænt ástand kvenna til að halda þeim frá áhrifastöðum og að markaðsfólk sé enn þann dag í dag að nota hálfnaktar konur í auglýsingar sínar upp að því marki að maður veit ekki lengur hvað maður á að gera við vöruna eftir að hún er keypt.
Á maður að borða hamborgarana frá Carl’s Jr. sem sjást í þessu myndbandi eða á maður að **** þeim? – HÉR sést auglýsingin í heild..
Þó að við séum mun betur stödd á Íslandi en í Bandaríkjunum og víða annarsstaðar þá erum við mjög móttækileg fyrir bandarískri menningu og þurfum í raun alltaf að vera á tánum til að standa vörð um þann árangur sem við höfum náð. Áfram Ísland!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.