Þá er það ríkappið af fjórða Pabbahelga þættinum en hér gekk heldur betur á ýmsu.
Fyrst byrjar Matti á að halda því fram við Kareni að börnin þurfi ekkert endilega að vera í fastri rútínu, skellir krökkunum til ömmu og afa og er byrjaður að laumureykja aftur.
Önnu Júlíu leiðist og vill fá Matta til að leika. Sama kvöld fer Karen í “after-eight” matarboð með tvíburavinkonunni og Siggalinginum hennar, – yfirmanni Matta, og Instagram frúnni hans.
Siggalingurinn stingur upp á því að Karen og Matti komi saman í ferðalag sem vinir, það yrði nú örugglega gaman að verða vitni að því, – Siggalingurinn ekki alveg raunsær.
Það voru að vísu smá vonbrigði að Karen og vinkona hennar voru ekki í samstæðum fatnaði þetta kvöldið eins og oft áður.
Hættulegi hipsterinn
AJ og Matti fara á hipstera ljóðalestur. Matti er soldið eins og illa gerður hlutur þarna. Hann fær “vinsamlega” ábendingu frá fyrrverandi kærasta um að vera góður við Önnu Júlíu, hún sé góð stelpa þó það sé gott að sofa hjá henni.
Hipsterarnir brenna bækur og skeyta engu um kolefnisfótspor, fyrrverandinn horfir ógnandi á Matta, það er nú eins gott að abbast ekki uppá þennan ljóðahipster.
Karen drekkur sig fulla í matarboðinu og fer svo ein á djammið… ég er smá hrædd um að hún eigi eftir að gera einhvern skandal. AJ vill að Matti komi inn í sig… er hún í barneignarhug? Matti snarhættir ástarlotunum og AJ afgreiðir sjálfa sig með þartilgerðum varalit.
Hvað er þetta með þig Matti?
Mig grunar nú að Matti sé farinn að fá bakþanka varðandi þessa konu og skilnaðinn yfirhöfuð. Karen endar tjúttið með því að taka taxa í Kópavoginn heim til Matta en hættir svo við að hringja bjöllunni hans… sem betur fer, það hefði orðið vel vandræðarlegt fyrir þríeykið.
Þór ráðleggur Matta að hætta að hugsa um þessar kjéllingar og koma í bumbubolta með strákunum.
Það virðist vera komin smá þíða á milli Karenar og Matta, hún hringir í hann og segist vera með áhyggjur af fermingarbarninu og hann býðst til að koma. Matti segir við Karen að hún líti vel út, hún var líka greinilega búin að sjæna sig aðeins til áður en hann kom… Karen er greinilega með eitthvað leikjaplan af einhverju life-hack appi.
“Komdu inn í mig” var ekki að gefa
Matti virðist vera minna spenntur fyrir Önnu Júlíu eftir að hún bað hann um að koma inn í sig. Hann og fleiri miðaldra menn spila bolta og ji minn góður hvað Þór yfirmaður er óþolandi, Matti kýlir hann kaldan!
Siggalingur tekur þessu ástandi öllu frekar illa, honum líður örugglega eins og hann sé á milli steins og sleggju. Matti brotnar niður hjá Siggaling, hann veit ekki neitt í sinn haus… nakinn og berskjaldaður fer hann bara að hágráta með Siggaling í fanginu.
Matti fer í Hagkaup til að kaupa smokka, afgreiðslustelpan var með smá dómhart augnaráð þegar hann skellti smokkapakkanum á kassann. Karen platar Matta aftur heim til sín með því að segja honum að sonur hans hafi viljað hitta pabba sinn fyrir svefninn, þau fara svo að hnakkrífast þegar Matti sér í gegnum hana.
Sko Matti er ekki lengur með lykla að Vesturbænum en hann er samt með sæta mynd af sér og Kareni á lyklakippunni.
Hvað var samt eiginlega planið hjá Karen með að fara heim til Matta eftir tjúttið? Langar hana virkilega að fá Matta aftur eftir allt sem hann er búinn að gera henni? Mun Matti dömpa Önnu Júlíu? Mun ljóðskáldið þá lúskra á honum? Ljóð gegn Excel.
Hvað gerist næst?! Þessum og fleiri spurningum verður svarað að viku liðinni í fimmta þætti af Pabbahelgum!
Ingibjörg hefur getið sér gott orð sem einn æstasti aðdáandi Norrænna sjónvarpsþátta á Íslandi. Hún sérhæfir sig í svokölluðum ríköppum og er, að margra mati, ókrýndur Íslandsmeistari í faginu.