„PITS ARE FOR PIGS stóð skrifað þvert yfir enni hins látna. Guðgeir pírði augun til að greina betur klunnalega stafina. Þeir virtust skrifaðir með svörtu tússi. Ekki hafði verið nægilegt rými fyrir essið í PIGS svo að endalykkjan hafði lent í hári mannsins og líktist helst dökkri klessu.“
Þetta eru upphafsorð bókarinnar Hinir réttlátu eftir Sólveigu Pálsdóttur.
Þekktur, miðaldra athafnamaður finnst látinn á hinum vinsæla golfvelli við Kiðjaberg á Suðurlandi og sama dag verður sprenging um borð í hvalveiðiskipi sem liggur við Reykjavíkurhöfn. Ofan á þessi ósköp bætist svo enn eitt verkefni fyrir lögregluna en það er hópur ungs fólks með hávær mótmæli við veitingahús sem hafa hvalkjöt á matseðlinum.
Það vill svo til að Guðgeir Fransson, sem kemur til með að stýra morðrannsókninni, er einmitt staddur á vettvangi glæpsins en hann er sjálfur áhugasamur golfari. Lögreglukonan Særós, sem er aðstoðarmaður Guðgeirs, er frekar fúllynd og óþægilega skipulögð persóna.
Hálfsystir hennar, Anita Rós, er algjör andstæða hennar; uppreisnargjörn, með litað svart hár, tattúskreytt hold og hefur fiktað við dópneyslu. Þeim lyndir ekki vel saman systrunum en Særós reynir þó að styðja við bakið á litlu systur og fer með henni á fund námsráðgjafa nokkurs í skólanum – en sá karakter kemur mikið við sögu eftir því sem líður á lesturinn.
Krimmi með kómískum undirtóni
Hinir réttlátu er spennandi sakamálasaga með húmor. Höfundinum, Sólveigu Pálsdóttur, tekst að draga upp kómíska en jafnframt hárnákvæma mynd af hinu litla íslenska samfélagi og er lesningin á köflum meinfyndin. Flókin ástarmál og sprell-lifandi persónur krydda textann og ekkert er slegið af í lýsingum, eins og t.d. hér um Hverfisgötuna:
„Skærbleik mynd í yfirstærð mætti augum þeirra um leið og þau stigu út úr bílnum þennan vindasama mánudag í byrjun október. Konan á myndinni var í glansandi, hvítu korseletti með rauðri blúndu, svo þröngu að brjóstin klesstust upp undir viðbeinin. Á höfðinu var hún með hvítan kappa sem líklega átti að minna á hjúkrun. Af óljósum ástæðum virtist hún hafa mikla nautn af því að sleikja á sér vísifingurinn.“
Sólveg Pálsdóttir skrifar Hinir réttlátu af allt að því smitandi frásagnargleði og textinn liðast áfram ljúflega og hnökralaust. Fyrri bók hennar, Leikarinn, fékk mjög góða dóma og með seinni bók sinni sannar Sólveig sig fyrir lesendum. Hún er svo sannarlega enginn eftirbátur herra Arnaldar …
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.