Frá því ég man eftir mér hef ég verið ægilega viðkvæm í maganum og húðinni: Ilmefni, of þurrt loft, ryk, hvítt hveiti, ódýrt vín og bjór (í alvöru), flóuð mjólk, germikið brauð og svo framvegis… stundum líður mér eins og ég sé einhverskonar skynjari á ofnæmisvalda. Hægt að senda mig inn í hús til að greina myglusvepp. Smakka mat fyrir kóngafólk. Ekki beint skemmtilegt ástand en svona eridda bara og ég veit að ég er ekki ein.
Ofnæmislæknir fann svarið
Líkt og flestir sem upplifa svona viðkvæmni og finna fyrir afleiðingum (exem, rósroði, magavesen ofl) hef ég í áraraðir gramsað og gúgglað eftir lausnum. Ég verð að segja að ég fann engin almenninleg svör fyrr en Yrsa Löve ofnæmislæknir benti mér á það fyrir nokkrum árum að skoða histamín í fæðu.
Hvað er histamín óþol?
Histamín er eitthvað próteinsamband sem er fyrir í meltingarkerfinu hjá okkur. Það finnst líka bæði náttúrulega – og myndast í fæðu eftir því hvernig hún er geymd, súrsuð eða gerjuð (gerjun er líka geymsluaðferð). Ef líkaminn þinn myndar svo of mikið af histamíni þá finnur þú fyrir afleiðingunum. Parmaskinka, túnfiskur í dós, bjór og þessháttar er til dæmis dæmi um mat sem myndar histamínið eftir framleiðslu meðan pekan hnetur, bananar og tómatar innihalda þetta bara frá náttúrunnar hendi.
Fæðutegundirnar sem innihalda histamín eru margar og stundum þolir maður eina og eina í senn en má alls ekki fá sér eitthvað annað. Ég get til dæmis japlað áhyggjulaust á einum banana og smá tómat, en ef ég bæti við avókadó, dökku súkkulaði, pekan hnetum, glasi af ódýru rauðvíni og sneið af gerbrauði þá fer allt í vesen. Maginn þembist upp og stundum koma rauðir flekkir á húðina. Exemið versnar. Þetta er glatað.
Á vefnum Doktor.is stendur þetta um histamín óþol:
Matvæli sem innihalda histamín og önnur skyld efni eins og sterkir ostar, spægipylsa, pepperóní, makríll, sardínur, síld og léttvín geta valdið svipuðum einkennum og fæðuofnæmi. Sama er að segja um matvæli sem losa histamín úr boðfrumum eins og súkkulaði, jarðarber, skelfiskur, tómatar og spínat.
Þið vitið hvernig þetta er með svona óþol. Stundum passar maður sig og stundum „stelst“ maður. Fyrir mig skiptir mestu máli að vita hvað ég þarf nauðsynlega að forðast og hvað sleppur. Eftirfarandi er algjört nónó:
- Rauðvín í ódýrari kantinum. Það er eitthvað við gerjunina í þeim. Kannski er notað mikið af því til að það gerjist hratt. Ég veit ekki. Veit bara að ég verð öll rauðflekkótt af því, fæ höfuðverk og nefstíflur og líður hreint ekki vel.
- Allar gerðir af bjór, nema þessar léttu. Corona er í lagi, Gull light og fleiri gerðir í þessum flokki.
- Venjulegt brauð (hvítt brauð, heimilisbrauð etc). Ein pínu sneið sleppur stundum en meira og þá þenst efri hluti magans upp og verður harður. Hrikalega óþægilegt.
- Flóuð G mjólk í latte (G mjólkin hefur hátt geymsluþol).
- Flest sem hefur mjög hátt geymsluþol og er mikið unnið.
Eins og lesa má er þetta vægast sagt flókið dæmi og ég hef aldrei í raun náð að mastera histamín laust mataræði. Ég veit þó alveg að þetta á listanum sem ég skrifaði fyrir ofan er á bannlista. Það væri reyndar frábært ef ég myndi einhverntíma gefa mér tíma og orku í að núlla þetta allt út og verða endanlega histamín frjáls manneskja. Það er bara svo erfitt! Kannski að maður þurfi stuðningshóp?
Þekktu sjálfa/n þig
Það er alltaf verið að segja okkur að hin og þessi fæða sé vond fyrir okkur en staðreyndin eru auðvitað sú að við erum ekki öll eins. Fullt af fólki þolir flestan mat og hefur fína meltingu meðan aðrir eru svona mitt á milli.
Galdurinn er bara að þekkja sjálfa/n sig. Sumir eru reyndar bara ómeðvitaðir um eigin líkama og ástand hans, eða tenginguna á milli þess hvað við borðum og hvernig okkur líður, en sem betur fer eru alltaf fleiri og fleiri að byrja að átta sig á þessu í stað þess að gleypa bara við allskonar predikunum sem oft eru líka bara sölumennska – Búa til vandamál og selja svo lausnina. Kombucha, kefir og súrkál eru t.d. í tísku núna en ef ÉG fæ mér þetta þá fer bara allt beina leið til Keflavíkur og Kulusuk. Kannski á það sama við um þig.
Ef þig grunar að þú gætir líka verið með svona histamín óþol þá skora ég á þig að kynna þér meira um málið. Til dæmis hér, hér og hér (hérna er svo mjög fræðileg grein fyrir lengra komna).
HÉR er listi yfir mat sem inniheldur annaðhvort mikið eða lítið af histamíni. Mikilvægt að lesa. Svo er fullt um þetta á netinu og allskonar akkántar á instagram undir töggunum #histamineintolerance #histaminefreediet ofl
Ef þú veist að þú ert með það þá væri gaman að fá komment hér neðst á síðunni. Þetta má alveg komast meira í umræðuna.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.