Margar konur eiga við það vandamál að stríða að fá óhóflega mikla dökka bauga undir augun. Það er margt sem getur orsakað þetta. Til dæmis erfðir, ofnæmi, þurrkur, mataræði og svefnskortur.
Maður getur þó gert eitthvað heima fyrir til að minnka bauga eins og að sofa nóg, drekka vatn, hugsa vel um húðina og nota réttar snyrtivörur. Að geyma augnkremið inni í ísskáp er líka algjör snilld þar sem að þá dregur það úr bólgum og pokum í kringum augun.
Sólarljós og sólböð geta gert það að að verkum að við verðum dekkri undir augunum og því er mikilvægt að nota bæði andlitskrem og augnkrem með góðri sólarvörn ef farið er í sólbað eða jafnvel í ljós. Ekki nota sólarvörn með minni stuðli en SPF 15 á andlitið.
Einnig eru mörg heimaráð sem virka. Agúrkusneiðar virka ekki bara í bíómyndunum heldur eru þær mjög gott ráð til að draga úr baugum og pokum! Þær draga úr bólgum, þreytu og er möguleiki að nota þær daglega. Skerðu 2 kaldar agúrkusneiðar niður og settu þær yfir lokuð augun í 10-15 mínútur.
Tepokar eru einnig gamalt húsráð, en þeir draga úr bólgum og jafna út húðlit í kringum augun. Geymdu tepokana inni í ísskáp yfir nótt til að kæla þá, bleyttu þá um morguninn og liggðu með þá yfir augunum í 10-15 mínútur. Þú munt sjá árangurinn strax! Ef þú átt ekki tepoka taktu þá ísmola, vefðu þá inn í mjúkan klút og settu yfir augnsvæðið. Ekki setja þá beint á augnsvæðið án þess að vefja þá, það getur valdið því að örfínar háræðar springa og getur valdið meiri baugum og litamisræmi.
Njóttu þess að dekra við þig heima fyrir og fá í leiðinni fallega húð í kringum augun!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com