Ég var svo heppin að fá í gjöf frá vinkonu minni pakka frá Clinique með hreinsmjólk, andlitsvatni og andlitskremi sem ég hef notað óspart síðan.
Konur eins og ég, sem eru útivinnandi með þrjú börn undir sex ára aldri, setja maskarann á sig með annarri hendi á morgnanna því það er yfirleitt eitt barn í fanginu og annað að kalla, verða að velja dekurvörurnar vel og það gerði vinkona mín aldeilis fyrir mig.
Á hverju kvöldi tek ég mér fimm mínútur í að setjast niður, nota öll þessi dásamlegu krem og ég verð bara ný manneskja á eftir. Já, oft þarf ekki mikið til að gera manni gott.
Svo ég tali nú ekki um hvað er gott að fara inn í daginn eftir að hafa byrjað hann á svona mini-dekri. Það er bara eitt sem er ekki nógu gott; nú fór ég út á land í vinnuferð og gleymdi öllum kremunum mínum góðu heima og finnst ég hafa elst alveg heilan helling!
Þetta er sem sagt ávanabindandi – en yndislegt!

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.