Á undanförnum áratugum má segja að nokkrar uppfinningar standi upp úr sem tímamótatól. Þar má nefna sem dæmi snjallsíma, internetið og ekki má gleyma fótanuddstækinu góða.
Allt eru þetta þarfaþing í daglegu lífi flestra. Það er þó ein uppfinning sem ekki fer mikið fyrir, en hún getur gert kraftaverk og jafnvel bjargað (félags)lífum:
Spanx!
Spanx er fyrirtæki sem stofnað var árið 2000 í kringum uppfinningu ungrar konu að nafni Sara Blakely, sem ótrúlegt en satt, var fyrst kvenna til að fullkomna það sem kallast á góðri íslensku “aðhaldsbuxur”.
Oprah yfir sig hrifin
Margir kannast við Spanx þegar Oprah Winfrey opinberaði illa haldið leyndarmál um að hún væri í raun og veru ein stór rúllupylsa, en þökk sé Spanx leit hún út fyrir vera ekkert nema ávalar, sléttar línurnar. Líkt og við vitum vel selst allt upp sem Oprah sest á. Galdurinn við Spanx er hins vegar sá að ekki bara framkvæma þessar aðhaldsbuxur hið ógerlega: að láta konum líða vel í þröngum flíkum, heldur skiptir það ekki máli í hvaða stærð einstaklingurinn er eða hvaða líkamsformi hann skartar – Spanx lætur mann alltaf líða betur og líta betur út.
Óþægilegt aðhald
Vissulega höfum við konur í aldanna rás reimað á okkur rassinn inn eða út, mittið ýmist færist upp eða niður og blessuðum brjóstunum þrýst út eða ýtt niður í mjóbak með korsilettum, mjaðmagrindum og öðrum tækjum sem hljóma eins og refsingartól hjá Spænska Rannsóknarréttinum.
Í heildina litið, ekki mikið gert út á þægindin. Á seinni tímum var til eitthvað sem líktist aðhalsbuxum en gengu undir mis kynþokkafullum nöfnum eins og Ömmunærbuxur (það gleymir enginn Bridget Jones-naríunum). Þær voru fyrst og fremst afskaplega óheillandi brækur og ljótar með eindæmum. Gripu þá margar konur til þess að klippa sokkabuxur til en aðdráttarafl jarðar gerir það að verkum að sokkabuxurnar rúllast upp á við og enda sem uppvöðlaðir boltar í klofinu.
Enn og aftur, ljótt OG óþægilegt.
Sokkabuxur í hitabylgju
Þessi dásamlega Sara Blakely, vann við að selja faxtæki og þurfti vinnu sinnar vegna að ganga í sokkabuxum.
Hún átti í ástar-haturs sambandi við sokkabuxur þessar vegna þess að þó þær héldu maganum og lærunum sléttum og stinnum, en trufluðu Söru mikið að neðan, sérstaklega saumurinn við tærnar því hún gekk alltaf í opnum skóm. Að auki bjó hún í Flórída. Undirrituð svitnar á milli tánna við tilhugsunina eina að þramma um rakasveittu Flórída í hnausþykkum sokkabuxum með faxtæki í faðminum.
Hugmynd fæðist
Góð uppfinning eða viðskiptahugmynd, er í sinni einföldustu mynd: lausn á vandamáli.
Sara sá að hún var ekki ein um þetta vandamál, heldur deildi hún því með flest öllum konum í heiminum. Allavega þær sem nota sokkabuxur að staðaldri. Hún réðst því í fyrsta lagi í að leysa vandamálið og í öðru lagi að breiða út boðskapinn.
Eftir þrotlausa vinnu fæddust Spanx, aðhaldsbuxur sem móta búkinn á fallegan hátt án þess að rúllast hvorki upp né niður, og láta ekki reyna á sársaukamörkin.
Aðhaldsbuxur sem mala gull
Í dag situr Sara Blakely á toppi viðskiptaveldis sem er metið á meira en milljarð dollara!!!
Fyrirtækið er alfarið í eign Söru og hefur það um hundrað manns í vinnu. Spanx hefur slegið í gegn og ógrynni af vörum fyrirtækisins hafa selst um allan heim.
Virtir þjóðarleiðtogar, Hollywood stjörnur og nágrannakonan þín geta allar sammælst um að Spanx sé svo sannarlega ein af stórkostlegustu uppfinningum seinni ára.
Aðhaldsbuxurnar gera ekki bara það að verkum að við lítum út eins og Venus sjálf í perluskelinni, heldur líður okkur þannig líka. Er það ekki það sem við erum alltaf að leita af, vellíðan í eigin skinni? Spanx kemur okkur að minnsta kosti hálfa leið á toppinn, með sléttar línur og stinnan rass.
Er hægt að biðja um meira? Nei. Klárlega ekki.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.