Miðaldra kona er ekki glæsileg fasteign
býr ekki yfir gamaldags sjarma
eins og áhugaverð íbúð í Þingholtunum,
röddin er stundum rám,
uppáhalds fylgihluturinn glas.
Þegar ég las Mislæg gatnamót, nýjustu ljóðabók Þórdísar Gísladóttur, þá leið mér svolítið eins og þegar ég horfði á Annie Hall og nokkrar aðrar Woody Allen myndir fyrir tvítugt. Mér leið eins og ég myndi pottþétt skilja þær og njóta þeirra betur eftir fertugt og auðvitað varð það raunin. Sumt skilur maður bara betur með aldri og þroska og þessi bók er akkúrat þannig.
Og svo ég vitni aftur í Woody Allen þá er bókin, líkt og mörg af hans verkum, bæði fyndin og djúp á sama tíma. Fyndin, af því hversdagsleikinn getur verið svo grátbroslegur eitthvað og af því við sjálf í okkar krúttlegu miðaldra tilvistarkreppu, getum verið svo vandræðaleg, og falleg, og skrítin… allt á sama tíma.
Mislæg Gatnamót inniheldur bæði ljóð, prósa og pælingar sem eru hversdagslegar og flóknar í senn. Þær spretta beint upp úr innra lífi höfundarins og sýna að hún skilur bæði sjálfa sig og okkur hin assgoti vel.
Skilur þjáninguna eins og öll alvöru ljóðskáld gera.
Svo ber hún þetta fram á mjög svo tilgerðarlausan hátt. Ég segi kannski ekki alveg eins og svið og rófustöppu á IKEA disk en að minnsta kosti eru réttirnir hennar alveg lausir við súrsað dill, léttþurrkuð granateplafræ og annað „þematengt hráefni sem pantað er af netinu“, svo ég vitni beint í hana sjálfa.
Allir þessir dagar
Skammdegislægðirnar
þyrla sér yfir okkur ein af annari
meðan vöðvar bólgna og
naglalakkið flagnar af
Miðaldra kona er ekki glæsileg fasteign
býr ekki yfir gamaldags sjarma
eins og áhugaverð íbúð í Þingholtunum,
röddin er stundum rám,
uppáhalds fylgihluturinn glas.
Lífið er ekki sjónvarpsþáttur,
vinir og grannar eru ekki persónur
í Seinfeld eða Friends,
enginn æðir inn án þess að banka,
segir eitthvað óviðeigandi,
opnar ísskápinn
og drekkur beint úr fernu,
í leyfisleysi.
Skjábirtan er varðeldur
ég sviðset líf,
skrifa innslög og birti myndir á samfélagsmiðlum,
flyt örleikrit í töskum og vösum,
nær ykkur kemst ég ekki.
Þegar þetta er skrifað trónir bókin í efsta sæti yfir mest seldu ljóðabækur landsins á metsölulista Eymundsson. Það kemur mér ekki á óvart því textinn/ljóðin eru svo aðgengileg og ótrúlega skemmtileg. Það geta allir lesið hana. Líka þau sem segjast ekki „skilja ljóð“.
Skáld í dag skrifa yfirleitt ekki mikið af fyndnum ljóðum sem fjalla um angist millistéttarfólks sem býr í botnlöngum, kjörþyngd, sólbrúnku og bjór sem er skrítið því það er einmitt svo gott og gaman þegar við getum speglað okkur í ljóðum og sögum, – og það ættir þú að geta, að minnsta kosti ef þú ert þessi dæmigerða „mid life crisis“ týpa eins og ég.
Þegar Hugleikur Dagsson gaf út sína fyrstu teiknimyndasögu, í handgerðri bók með kjölinn límdan saman með gaffer teipi, þá keypti ég svona tíu stykki og gaf öllum unglingum fjölskyldunnar í jólagjöf. Ég reikna fastlega með því að allar vinkonur mínar og frænkur, sem komnar eru yfir fertugt, fái Mislæg gatnamót í jólagjöf. Hún er bara svo skemmtileg.
[usr 4.5]PS: Ég mæli með því að elta Þórdísi á Instagram. Hún gerir mjög næs „stories“. Flytur örleikrit í töskum og vösum.
Benedikt bókaútgáfa gaf bókina út.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.