Ég smakkaði allra bestu salsasósu sem ég hef smakkað á minni lífsleið um daginn!
Hún fékk mig til að skoða fleiri uppskriftir og útkoman varð sú að ég ásamt gestum mínum bjuggum til mexíkóska tortillaveislu frá grunni. Það var ótrúlega gaman að koma saman og allir lögðu sitt af mörkum til að gera veisluna frábæra.
Salsasósa frá grunni er einfaldlega ekki sambærileg þeirri sem þú kaupir útí búð, ég get lofað þér því að eftir að þú prufar þessa muntu aldrei, aldrei kaupa þér tilbúna aftur. Fyrir utan hversu stuttan tíma hún tók þá er ferskt alltaf best.
Það er hálf fyndið að ég skuli vera matarbloggari vegna þess hve matvönd ég er en ætli það sé ekki ákveðinn kostur í leiðinni? Ég er t.d. bara nýlega byrjuð að kunna að meta avacado en við bjuggum einnig til guacamole frá grunni.
Í fullri hreinskilni þá misheppnaðist það pínulítið hjá okkur vegna þess hve óþroskuð avacado-in voru en afar bragðmikið engu að síður. Til þess að finna hið fullkomna avacado skal kroppa í lausa bitann á avacado-inu og ef það er gult undir þá er það fullkomið.
Við gerðum tortillakökurnar einnig frá grunni. Mig hefði aldrei grunað hvað þetta var einfalt og hve stuttan tíma þetta tók. Stundum borgar sig að gera frá grunni, sleppa við öll aukaefni og kostnað ! Við vorum að stefna að aðeins hollari máltíð þannig við notuðum spelt á móti hveiti í kökurnar en þar af leiðandi urðu þær pínulítið harðari en ella. Ég mæli með því að nota 1/3 gróft spelt á móti 2/3 fínu spelti.
Salsa
4 tómatar
1 meðalstór rauðlaukur
2 chilli (eins sterk og þú vilt)
2 lítil lime
Hálfur pakki af fersku kóríander
Sjávarsalt
Aðferð
Tómatar eru skornir mjög fínt og settir í skál.
Laukurinn, Chilliið og kóriander saxað mjög fínt og sett í skál.
safinn úr limeinu settur úti og saltað.
Guacamole
2 meðalstór mjög vel þroskuð avacado
1 meðalstór rauðlaukur
Hinn helmingurinn af kóríandernum
2-3 lítil lime
Sjávarsalt
Aðferð
Avacado kramið í skál, rauðlaukur skorinn mjög fínt og bætt við avacadoið.
Kóríander saxað mjög fínt og sett útí.
Lime safinn og saltað.
Mjög smátt saxaðir tómatar ef vill.
Tortillakökur – 12 kökur
2 og hálfur bolli hveiti. Mæli með 2 bollum af fínu spelti og hálfum af grófu
Hálfur bolli bragðlítil olía
1 teskeið salt
1 bolli af heitu vatni
Aðferð
Blandaðu saman í stóra skál hveiti, olíu og salti.
Bættu við heitu vatni þar til blandað er slétt.
Skiptu deiginu í 12 jafna hluta og láttu standa í hálftíma með plastfilmu yfir.
Hitaðu pönnuna milli miðlungs – háan hita svo þú náir að brúna kökuna.
Þegar pannan er heit skaltu fletja út deigið á hveitilögðu borði þar til það er eins stórt og óskað er eftir.
Skelltu kökunni í pönnuna og eldaðu í c.a. 2-4 mín eða þar til loftbólur myndast. Þá skaltu snúa henni við og elda í 1 mín. Ath. að enga olíu þarf. Gott er að strá smá salti yfir á meðan þær eldast.
Svo er bara að hafa fullt af grænmeti, steiktum kjúkling uppúr taco kryddi og/eða þunnsneiddri nautalund, rifnum osti og sýrðum rjóma !
Róberta Michelle Hall er fædd í Reykjavík en rekur rætur sínar til Bandaríkjanna eins og nafnið ber með sér. Hún á erfitt með að sitja kyrr og líður best með mörg járn í eldinum. Helstu áhugamál Róbertu eru líkamsrækt, sálarrækt og bakstur. Hún bakar allt milli himins og jarðar hvort sem það er óhollt eða hollt og lætur stundum aðra um að klára kökuna sem hún smakkar þó sjálf því gott skal það vera!