Það kom upp smá hugleiðing í spjalli sem við áttum nokkrar pjattrófur um daginn þar sem við vorum að tala um konur sem meta sjálfa sig útfrá merkjunum sem þær versla, í fatnaði, snyrtivörum, bilum, húsgögnum ofl.
Victoria Beckham er gott dæmi um konu sem getur keypt sér allt sem hugurinn girnist en lítur aldrei út fyrir að vera hamingjusöm og getur ekki einu sinni mætt á fótboltaleiki hjá sonum sínum án þess að vera uppstríluð eins og hún sé á leið í myndatöku hjá Vogue…
Við könnumst margar við að eiga vinkonu sem „á allt það flottasta“: Merkjafatnað, merkjasnyritvöru, merkjaheimilisvörur, merkjabíl o.sv.fr.v. og við undrum okkur á því hvernig hún á efni á þessu öllu saman og við pælum í því hvort hún sé hamingjusamari með Louis Vuitton töskuna sína heldur en við erum með okkar úr Friis & co.?
Jafnvel myndast hópþrýstingur í vinahópum þar sem þær sem eiga merkjavöruna „namedroppa“ því sem þær eru nýbúnar að kaupa sér… og tekst jafnvel að sannfæra hinar um að þær vanti þetta líka -eða að maður hugsar með sér „er ég glötuð af því peysan mín er BARA úr H&M?..“
En við verðum að passa okkur á við hvað við miðum. Er vinkonan með dýru hlutina hamingjusamari eða er hún kanski bara að fylla upp í tómarúm í hjartanu með nýrri merkjavöru eða jafnvel fela eigið óöryggi með því að kaupa sér það sem hún heldur að geri hana “merkilegri”?
Notar hún merkjavöru til að skilgreina sig sem manneskju?
Það er ekki skrítið í nútímasamfélagi að við látum glepjast af markaðssetningunni allt i kringum okkur og auðvitað langar flestar konur að eiga það sem fallegt er og af góðum gæðum. En það þarf ekki alltaf að heita „fínum nöfnum“ til að það sé fallegt og vandað.
Maður kaupir sér ekki eigin stíl. Stíll er eitthvað sem þú skapar og sértu skapandi (sem flestar konur eru) þá þarftu ekki að kaupa allt það dýrasta til að vera flott.
Eitt er víst að við kaupum okkur ekki hamingju. Vellíðanin sem fylgir því að eignast nýja flík eða hlut sem okkur hefur langað í lengi dofnar ef maður eyðir um efni fram og situr uppi með himinháan visa-reikning og nagandi samviskubit.
En nú eru útsölur og þá getur maður fundið marga gullmola í búðum bæjarins án þess að þurfa að naga sig í handabökin. Munum bara að merkin gera okkur ekki merkilegri 🙂
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.