Halla Þórðardóttir er 26 ára atvinnudansari hjá Íslenska Dansflokknum. Hún er í sambúð með Pétri Jónassyni hagfræðingi og saman eiga þau stelpu sem heitir Ronja.
Við köstuðum á hana nokkrum spurningum… og hér næstu daga munum við fá að kynnast dönsurum í Íslenska Dansflokknum aðeins nánar.
Hvernig slakar þú á eftir erfiðan vinnudag: Eyði gæðatíma með dóttur minni, borða mikinn kvöldmat enda yfirleitt glorhungruð eftir vinnudaginn. Slaka svo á í sófanum með eitthvað gott í sjónvarpinu eða góða bók, ég er nýbúin að klára Unbreakable Kimmy Schmidt og lesa The Restraint of Beasts eftir Magnus Mills. Einn ískaldur Kaldi setur svo punktinn yfir i-ið.
Er eitthvað ákveðið sem þú gerir alltaf fyrir sýningu: Mér finnst rosalega gott að fara í sturtu fyrir sýningar. Svona “passív” upphitun. Annars fer það rosalega mikið eftir eðli sýningarinnar, því stressaðri sem ég er fyrir sýningunni þeim mun meiri tíma þarf ég og stundum hafa heilu dagarnir farið í undirbúning. Þá borða ég sérstaklega orkumikinn morgunmat og legg mig yfir daginn.
Hvenær byrjaðir þú að dansa: Ég byrjaði 10 ára gömul í Listdansskóla Íslands
Hvað heillar þig mest við dansinn og hvers vegna: Þegar ég dansa verk sem ég fæ mikið út úr er það eins og trúarbrögð og maður færist á annað plan andlega á meðan á því stendur.
Hvað áhrif hefur dansinn á þig tilfinningalega: Í flestum tilvikum kallar dans fram sælutilfinningu, annars myndi maður ekki hanga í þessu þar sem álagið er gríðarlegt.
Stundarðu einhverja aðra líkamsrækt eða íþróttir: Ég stunda jóga þegar ég hef tíma fyrir það, þá meira fyrir andlegu hliðina en sem líkamsrækt.
Hver er uppáhalds danshöfundurinn þinn og dansverk: Þegar stórt er spurt! Enginn einn, en síðasta verk sem ég sá sem kveikti allsvakalega í mér var Rite of Spring eftir Johan Inger, sýnt af Konunglega sænska ballettinum.
Á maður að skilja samtímadans eða er þetta meira spurning um að upplifa: Hver skilur á sinn hátt í gegnum sína reynslu og sín samfélagsgleraugu. Persónulega gef ég mig frekar á vald upplifunarinnar þegar ég fer á dansverk.
Hvað táknar samtímadans í þínum huga: Rosalega margt.
Hver er eftirlætishluti þinn af BLÆÐI: Les Medusées…
[youtube]https://youtu.be/NTV7YBuYpoc[/youtube]
Frumsýningin er 19. Maí og svo tvær aðrar sýningar 25. Maí og 28. Maí – Hvað svo: Sumarfrí! Fer í algjöra afslöppun með manni, barni og tengdafjölskyldu í suður Ungverjalandi í júní, það verður yndislegt eftir þessa massívu törn sem er að klárast á næstu vikum!
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.