Ég á það til að tárast þegar ég borða eitthvað gott og fæ hraðan hjartslátt þegar ég sé eitthvað fallegt. Ég fæ svefntruflanir yfir góðri hönnun og heimsborgir heilla mig á þann hátt að ég öðlast trú á fyrri líf. Ég er fagurkeri. Ég er mathákur og ég er það sem kallast mætti hrifnæm.
En samt ná “strákarnir okkar” ekki að hreifa við mér svo neinu nemi. Ég missi pollróleg af hverjum meistaraleiknum af fætur öðrum og leita skjóls inná skrifstofu. Þar sökkvi ég mér í lestur blogga og netsíðna sem fjalla um hönnun og matargerð, hátísku og arkitektúr. Ef þið eruð sama sinnis getið þið nú leitað í sama skjól og ég ….
Hér eru nokkur af mínum uppáhalds:
www.thepartydress.net
Þetta er frábær partýsíða ef þú hefur gaman að því að halda veislur, tala nú ekki um barnaafmæli, endalaust hugmynda-konfekt.
http://chocolateandzucchini.com
Hún Chlothilde er frönsk, býr í París en skrifar á ensku svo snilldarlega pistla um mat að hún er ein af þessum bloggurum sem eru búnir að “meikaða”. Hún hefur gefið út bækur um mat og ferðalög, skrifar fyrir franska Elle, hefur átt innlegg hjá Martha Stewart og hefur atvinnu af því að vera matarbloggari. Endilega tékkið á henni.
www.marthastewart.com
Og þá er það drottningin sjálf, sálarsystir mín og snillingur í næstum öllu: ég spyr hana oftar ráða en mömmu, fæ oftar uppskriftir hjá henni en öðrum vinkonum mínum og hún hefur oftar hjálpað mér með handavinnu en amma.
www.epicurious.com
Hvar væri ég án Epicurious? Ég leita hér inn nokkrum sinnum í viku til að fá uppskriftir og hugmyndir og búðaferðir mínar fara þannig fram að ég kaupi það sem mér lýst best á og er ferskast hverju sinni og þegar heim er komið slæ ég nokkrum innihaldsefnum inn í leitarstikuna þeirra og fæ þar af leiðandi hugmyndir að kvöldmatnum. Engin ástæða til að ákveða í búðinni hvað þú ætlar að elda og afleiðingin er sú að við erum alltaf að prófa eitthvað nýtt og spennandi.
thealternativebride.blogspot.com
The Alternative Bride: Allt sem hún fjallar um er hipp og kúl og myndirnar sem hún velur eru ávallt draumkenndar og dramatískar. Algjört augnakonfekt.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.