Eftir að ég komst að því að Íslendingar eru álíka margir og íbúar í bænum Hull á Englandi hef ég velt því mikið fyrir mér.
Ég máta þessa staðreynd við sitt lítið af hverju sem gerist hér á Íslandi, enda hef ég alltaf átt bágt með að upplifa Íslendinga sem þjóð. Þjóð er eiginlega of stórt orð fyrir okkur. Mér finnst við meira eins og ættbálkasamfélag.
Nú er ég til dæmis að hugsa um fjölmiðla…
Hugsa sér ef í Hull væru að minnsta kosti fjögur dagblöð og yfir tíu tímarit sem flest fjölluðu meira eða minna um íbúana í Hull og það sem þar gengur á. Í Hull væru líka að minnsta kosti fjórar sjónvarpsstöðvar og þar af ein rekin af bæjarráðinu í Hull. Þá eru ótaldar allar útvarpsstöðvarnar í Hull svo ekki sé minnst á alla lífstílsvefina og vefritin.
Og stjórnskipulag…
Í Hull væri bæjarráð skipað fjórum flokkum, 62 þingmenn og ein 12 manna nefnd sem í raun réði öllu. Þá eru ótaldir hundruð embættismanna sem væru að vinna fyrir t.d. skattinn, félagsmáladeildir og sitthvað fleira. Nú og ráðuneytin auðvitað. Ekki nóg með það. Hull væri að sjálfsögðu með sendiráð um víða veröld, risastór og flott hús sem kostar háar fjárhæðir að reka enda líta Hull búar á sjálfa sig sem ‘major players’.
Og skólamál…
Í Hull væru auðvitað endalaust margir grunnskólar og þrír Háskólar að ótöldum leikskólum. Þar væru einnig einhver elliheimili en alls ekki nægilega mörg miðað við eftirspurn. Á elliheimilum væri meirihlutinn starfsfólk sem talaði ekki ensku og spítalarnir væru nánast óstarfhæfir.
Nú segja sumir kannski að þetta sé ekki sanngjarn samanburður. Ókei. Prófum að taka alla sem búa í Hull og sigla þeim á eyju rétt norðan við England. Þá erum við komin með Ísland. Taraaa…
Súrrealískt?
Hér er listi af viðurkenndum löndum þar sem íbúafjöldinn er sambærilegur og hér á Íslandi. Ætli íbúar þessara landa eigi jafn flókið líf, jafn marga selebba, fjölmiðla og stríðandi fylkingar og íslendingar? Maður spyr sig 😉
Vestur-Sahara, höfuðborg; El Aaiún, íbúafjöldi; 393.831
Brunei, höfuðborg; Bandar Seri Begawan, íbúafjöldi; 381.371
Maldívueyjar, höfuðborg; Malé, íbúafjöldi; 379.174
Franska Polynesía, höfuðborg; Papeete, íbúafjöldi; 283.019
Bahama-eyjar, höfuðborg; Nassá, íbúafjöldi; 307.451
Belize, höfuðborg; Belmopan, íbúafjöldi; 301.270
Ísland, höfuðborg; Reykjavík, íbúafjöldi; 325,671
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.