Ert þú 90’s barn? Ég tók saman lista af því sem einkenndi æsku okkar vinkvennanna… kannast þú kannski við þetta líka!?
Snyrtivörurnar
Það var einhvernveginn svo kúl að vera með heiðbláan maskara og jafnvel eyeliner líka…
Og hvers vegna ekki að skella maskara í hárið svona fyrst maður var að þessu? Hármaskarar voru til í öllum regnbogans litum. Ég man hvað það var kúl að maskara einn lokk-en það var furðuleg lykt af þessu! Áður en þetta kom á markað notuðum við cool-aid og jafnvel matarlit til að lita einstaka lokka.
Wet’n’Wild voru ef til vill einu snyrtivörurnar sem við höfðum efni á þegar við vorum (of) ungar að stelast í að kaupa snyrtivörur í Hagkaup í Kringlunni fyrir vasapeningana. Svo virtist maður bara kaupa þá liti sem Spice Girls, Gwen Stefani og jafnvel Aqua pæjan sjálf Lene Nystrøm voru með á sér í myndböndum og á plakötum.
Svo kom tímabilið þar sem hvítur augnblýantur var notaður óspart-þykkar línur á efri augnlok og einstaklega smart. Sumar notuðu hann líka á varirnar. Ég man eftir því að kennari í skólanum skipaði okkur nokkrum sinnum að fara inn á bað og þrífa okkur… svona gerðu dömur ekki.
Pamela var alveg að rokka 90’s tímabilið með þunnu augabrúnunum og varablýanti sem engin gleymir. Þá var flottast að nota dökkbrúnan varablýant og helst ljósbrúnan varalit. Því þykkari sem línan var-því betra!
Og aftur komum við að Wet’n’Wild. Ég datt í nett nostalgíukast þegar ég fann þessa mynd!
Hard Candy kom seinna. Ég man að það var svo fancy að því var plantað á efri hæðina í Hagkaup í kringlunni en Wet’n’Wild fékk ekki betri stað en við kassana á neðri hæðinni hjá matvörunum. Hard Candy var kúl og hver elskaði ekki að fá furðulegan hring í kaupbæti?
Svo var auðvitað mjög flott að rúlla á sig eins og nokkrum umferðum af glimmeri-hvar sem var á líkamann. Kannski á bakið og axlirnar eða á bringuna eins og Britney Spears gerði oft. Hámark glæsileikans!
Hárið
ZigZag hárböndin voru málið. Þannig gat maður sleikt hárið algjörlega upp! ekki skemmdi fyrir að nota gel líka. Við vorum ekkert að hugsa um hvaða litur hentaði hvaða hárlit. Notuðum bara það sem okkur þótti flott.
Svo komu tattooböndin og fleiri þröng hálsbönd. Þetta þótti mjög smart og sumir fengu sér þykk bönd með göddum eða steinum
Þessi eru þó í algjöru uppáhaldi í minningunni hjá mér; Melluböndin. Hver veit hvaðan nafnið kemur en þau voru snilld! Af einhverjum ástæðum gerðum við bara eins og stóru systur okkar og eldri stelpur í skólanum og klipptum sokkabuxur til að nota sem hárbönd. Ég er ekki viss um að mæður okkar hafi alltaf talið sokkabuxurnar ónýtar sem okkur datt stundum í hug að klippa niður…
Fiðrildaklemmur! þær voru aðalmálið. Sumar gengu það langt að fá sér stærri klemmur með vængjum á gormum sem hreyfðust. Því fleiri litir og tegundir í hárinu-því betra!
…Svo vildu stelpur allt í einu allar styttur í hárið eftir að Friends fór í loftið ’94. Jennifer Aniston hefur reyndar tekist vel að halda í það síðan- að vera sú kona sem margar reyna að líkja eftir í hárstíl hverju sinni – Þó hún hafi hætt að vera Rachel Green.
Ilmvötnin
Ég man eftir því að ofurgæjarnir notuðu Polo Sport og reyndar líka Tommy Hilfiger. Svo var spreyjað nógu fjandi vel á sig til að laða dömurnar að.
CK one fyrir bæði kynin sló allrækilega í gegn. Það var svolítið flott að nota ilmvatn-með kærastanum sínum! Cool Water var svo eitt það vinsælasta hjá stelpunum ásamt Tommy Girl.
Ilmvötnin frá Body shop voru mjög vinsæl og ég man hvernig var hægt að fá að prófa þau í búðinni. Þar voru glerglös, lík tilraunaglösum með glerpinna ofan í sem maður gat notað til að setja á sig. Sport!
…Buffalo skórnir og Tark buxurnar
Ég held mér hafi fundist fátt jafn fallegt á sínum tíma. Ég man eftir að hafa stolist í skó stóru systur sem voru of stórir á mig-en það skipti engu máli. Svo þegar ég fékk mína eigin (sem kostuðu þá heilar 10.000 krónur, sem þótti hellingur) vildi ég helst sofa í þeim. Fyrst fékk ég alveg flatbotna (voru botnarnir í alvöru svona háir?!) og svo man ég eftir að hafa fengið týpuna fyrir neðan seinna.
Tark buxurnar voru þröngar og flottar. Oft brettum við upp á þær og varð kalt á ökklunum í frímínútum fyrir vikið.
Þessi ár voru ómetanleg! Vantar eitthvað á listann? 😀
Hulda Jónsdóttir Tölgyes er 28 ára og úr Reykjavík.
Hulda hefur lokið tveimur háskólaprófum í sálfræði og stefnir ótrauð á að læra enn meira innan þess sviðs á næstu árum.
Hún er jafnframt lærður naglafræðingur úr MOOD skólanum og einn af stofnendum poppkórsins Vocal Project.
Hulda er hundafrík sem naglalakkar stundum tíkina sína!