Nú styttist í jólin og það er alveg ljóst að það bíða margir spenntir en því miður eru sumir með pínu kvíða í mallanum.
Jólahaldið hjá okkur er nefninlega enn stílað í kringum vísitölufjölskylduna og gerir ekki mikið ráð fyrir því að fólk sé fráskilið og búi við blandað fjölskyldumynstur.
Staðreynd málsins er sú að það eru eiginlega allir fráskildir eða eiga fráskilda foreldra. Flestar vinkonur mínar, eða svona 80%, eiga fyrsta barnið sitt með öðrum manni en þeim sem þær búa með í dag. Þannig er það bara. Og eflaust þekkir þú líka ansi margar.
Í gamla daga, eða þegar amma og afi voru ung, var talað um að fólk ætti sér tvö æviskeið. Annað fyrir og hitt eftir að komið var í hjónabandið. Næsta kynslóð þar á eftir skildi kannski….”og núna býr hann með seinni konunni sinni”. Semsagt, þú áttir kannski tvo menn. Annann til sirka fertugs, eða þegar krakkarnir voru orðnir nógu fullorðnir til að það væri auðveldara að skilja – og þá fékkstu þér seinni manninn.
Breyttir tímar, breyttar fjölskyldur
Í dag er þetta orðið þannig að kona um fertugt á kannski þrjár sambúðir að baki og það er akkúrat ekkert furðulegt við það. Börnin sín á hún þá kannski með tveimur mönnum og maðurinn hennar á kannski eitt til þrjú börn með einni til þremur konum. Þettta gengur sinn vanagang yfir árið með pabbahelgum og því öllu en svo koma jólin og þessi krafa um að ÖLL vísitölufjölskyldan eigi að vera saman að borða yfir sig af hangiketi og opna pakka. Þá vandast málið.
Eðlilega er gaman að hlakka til þegar þú veist að þú getur verið með öllum ástvinum þínum þessa daga en út af þessu 21. aldar fjölskyldumystri sem við búum við í dag þá getur verið svolítið erfitt að fá þetta allt til að passa- kannski eins og að reyna að láta ferkantaðan staur til að passa í kringlótt gat. Hann passar ekki.
Hvað er þá til ráða?
Kæra vinkona, við þurfum að taka þessu öllu minna alvarlega. Ef þú átt t.d. eitt barn og það er ekki hjá þér á aðfangadag þá er EKKERT sem segir að þú megir ekki opna gjafirnar og halda aðfangadag á jóladag. Þetta er jú bara kvöldverður og svo gjafaopnun yfir kaffi og konfekti. Þessvegna er líka bara allt í lagi að hafa TVÖ aðfangadagskvöld. Það er að segja, opna hluta af pökkunum annað kvöldið og restina hitt. Það er líka skemmtilegt að skjóta upp flugeldum á þrettándanum, enda eru flugeldarnir málið og stemmningin hjá þér og þínum.
Ef þú átt ekki kærasta/mann, ert skilin og á bömmer yfir því að sitja 27, 37 eða 47 ára gömul heima hjá mömmu þinni og pabba þá er kannski góð hugmynd að skreppa niður á Hjálpræðisher og gefa mat? Eða einfaldlega bjóða einhleypum vinkonum þínum (sem líður svipað) heim til þín? Þið getið spilað eða fengið ykkur bara rauðvín. Ertu hvort sem er ekki búin að vera meira með þeim á árinu en foreldrum þínum og hafa þær þar með ekki haft meiri áhrif á þig á liðnum misserum? Það er kannski hálf glatað fyrir fullorðnar konur að hanga með foreldrum sínum á jólum. Einum of mikið Bridget Jones.
Íslendingar taka þessu of alvarlega
Við þurfum að uppfæra jólaforritið okkar í takt við breytt samfélag. Þetta á bara að vera notalegur og skemmtilegur frítími sem við eyðum með fólki sem okkur þykir vænt um en ekki dramatískur tími þar sem allt er sótthreinsað og allir að farast úr stressi yfir því að þetta verði ekki FULLKOMIÐ.
Hliðrum frekar til dagsetningum til að geta notið þessa tíma og stokkum aðeins jólaspilin í takt við breytt samfélag.
Við megum það alveg – þetta eru okkar jól!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.