Steinunn Sigurðardóttir er einn af ástsælustu rithöfundum Íslendinga. Það einkennir ritstíl hennar hve mikið vald hún hefur á íslenskri tungu. Þó hefur hún búið erlendis um langt skeið bæði í Frakklandi og Þýskalandi.
Bækur Steinunnar fjalla margar um ástina og hún er hreinlega snillingur í að lýsa tilfinningum sögupersóna sinna án þess að efnið verði klisjukennt.
Tímaþjófurinn er bók eftir Steinunni sem kom út árið 1986. Ég las hana fyrst sem unglingur og gerði mér grein fyrir því að svona hlyti ástin að vera. Síðan hef ég lesið hana aftur þar sem ég velti því fyrir mér hverju fólk kýs að trúa, hvar mörk andlegs heilbrigðis og geggjunar liggja og skáldlegu máli svo eitthvað sé nefnt.
Aðalpersónan í Tímaþjófinum, Alda, er vel greind og veit það sjálf. Ekki nóg með það, heldur er hún líka meðvituð um það hve fögur hún er, rík og ekki síst stórættuð. Af þessu leiðir að það getur ekki hver sem er verið jafnoki hennar. Það er þetta sem gerir persónu Öldu áhugaverða í samhengi við tilfinningalíf hennar.
Það sem ég ELSKA við þessa bók er hve ástarreynslunni er lýst af mikilli næmni. Í menningu okkar í dag er oft erfitt að tala um ástina og ekki þykir flott að lesa ástarbækur. Sumir myndu ganga svo langt að kalla slíkar bækur tímaþjófa! Ég efast ekki um að margar þeirra séu það en alls ekki allar. Mér finnst frekar vera þannig í pottin búið að umræðan um ást sé að hverfa, eins og hún eigi svo erfitt með að finna sér farveg og komast til skila.
En ekki í Tímaþjófinum, þar er ljóðrænn texti með írónískum undirtón sem fyllir blaðsíðurnar. Listrænt séð er það fallegt en höfundinum tekst einnig á þennan máta að koma til skila óræðum tilfinningum.
Sem sagt – Tímalaus snilld í Tímaþjófinum.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.