Síðasta miðvikudag var sýningin Just imagine frumsýnd í Gamla bíói. Það er Tim nokkur Piper sem fer með aðalhlutverkið þar sem hann leikur John Lennon ásamt því að taka lög eftir hann.
Það sem var gott við sýninguna er að Tim nær útliti Johns ansi vel og nær rödd hans ágætlega. Ekki gat hann þó náð hinum breska hreim Lennons eins vel og maður hefði viljað enda er Tim Piper (greinilega) Bandaríkjamaður.
Hugmyndin að sýningunni er góð og handritið er fínt. Piper nær að fara yfir lífskeið Lennons og deila þannig sögu hans. Hann segir frá lífshlaupi Lennons og tengir viðburði úr ævi hans við lög sem Lennon samdi á hverju skeiði fyrir sig. Það sem er hinsvegar ekki jafn gott er að þrátt fyrir að vera ágætis tónlistarmaður er Piper ekki nægilega góður leikari, ég allavega var ekki viss um að þeir taktar sem hann sýndi á sviðinu hafi endurspeglað John Lennon.
Kannski er ég of ung til þess að minnast þess en átti Lennon oft til að ulla á áhorfendur? Þetta gerði Piper þó nokkrum sinnum (kannski hefði verið nóg að gera þetta bara einu sinni?). Það sem einnig kom við kaunin í mér var sú einfalda staðreynd að Lennon var svo rosalega mikill snillingur og töffari en þessu nær Piper einfaldlega ekki. Líklegt er að margir geti horft framhjá því en mér fannst sem leikurinn ætti að skipta meira máli. Áhorfandinn gat einfaldlega ekki gleymt því í augnablik að Piper væri EKKI Lennon.
Einhvernveginn finnst manni að leggja eigi mikið upp úr vönduðum vinnubrögðum þegar lífshlaupi Lennons eru gerð skil, til að vera viss um að minning hans sé heiðruð. Þetta var, að mínu mati, á mörkunum að vera nógu gott. Visualar sýningarinnar hefðu getað verið gerðir af manneskju með litla tölvukunnáttu og þrátt fyrir að meðleikararnir væru fínir tónlistarmenn gat verið pínlegt að sjá þá taka skrefið aftur frá míkrafóninum og hlægja þegar Piper sagði eitthvað sem átti að vekja lukku á meðal áhorfenda. Vissulega komu góðir sprettir en oftast var þetta ekkert til þess að hrópa húrra yfir.
Eitt sem ber að nefna og skiptir örugglega höfuðmáli þegar ræðir um svona sýningu er að hljóðkerfið í Gamla bíói mætti vera betra. Eins hefði líklega hjálpað til ef skjárinn sem sýndi myndskeiðið hefði verið stærri. Annað atriði varðandi Gamla bíó er að þar mætti starfsfólk taka sig örlítið á hvað varðar kurteisi. Dæmi um þetta er að það mátti taka með sér drykki (t.d bjór) inn í sal en þegar vinkona mín laumaðist til þess að fara á salernið var hún beðin, helst til höstuglega, um að vera ekki að þessu rápi. Hér var fín og kurteis dama að létta á sér, dama sem ekki vissi hvort eða hvenær kæmi hlé!
Þegar öllu er á botnin hvolft voru fleiri neikvæðir punktar en jákvæðir við sýningu Pipers – þó ágætis tónlistarmaður hafi verið á ferð var sýningin ekki nógu vönduð og á henni of margir vankantar. Ég mæli með því að Piper láti gera fallegri visuala, að hann skipti út búningum og æfi sig betur í að leika.
Hugmyndin að sýningunni er góð, hér voru á ferðinni fínir tónlistarmenn og ekki er því að neita að Tim Piper svipar til Lennons en það þyrfti að vanda framsetninguna mun betur. Maður hlýtur að mega gera kröfur um það að einum mesta tónlistarsnillingi síðustu aldar séu gerð góð skil.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.