Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera
því allann andsk…
er þá hægt að gera-Áróra Björnsdóttir
Einhverntíma heyrði ég að konur notuðu 11.000 orð á dag en karlar aðeins 5000. Þetta stafar væntanlega af því að konur segja almennt mikið meira. Hringja símtöl til þess eins að tala saman. Liggur meira á hjarta.
Samt er það svo merkilegt að þegar maður flettir í gegnum tilvitnanabækur þá er mikið minna vitnað í konur. Ég tók saman nokkur sem eru frekar skemmtileg. Skemmtilegust finnst mér vísan í lokin. Þessi eftir Halldóru Beinteinsdóttur (Björnsson). Hún minnir mig nefninlega á rím sem Áróra ömmusystir mín lét eftir sér hafa í góðu glensi en sú átti heima í Ameríku, ók um á rauðbleikum kadilakk og lifði, að mér fannst, ótrúlega ævintýralegu lífi. Þannig á jú lífið að vera. Á myndinni fyrir ofan má sjá Róró frænku spóka sig í fína bílnum. En hér eru nokkrar fallegar tilvitnanir í íslenskar skáldkonur…
„Það verður að planleggja öll rán vel. Það er búið að skrifa allt og lifa allt; allt er þjófnaður.”
-Vigdís Grímsdóttir
„Þú leggur niður grímuna fyrir Guði og sjálfum þér. Og þú ert alltaf barn.”
-Þuríður Guðmundsdóttir
„Ég hef reynt að stíga létt til jarðar, svo ég meiddi ekki jörðina.”
-Kristín Sigfúsdóttir
„Það gerist aldrei neitt um leið og það gerist. Allt gerist eftirá.”
-Steinunn Sigurðardóttir
„Milli nýs og gamals er allt óskapað.”
Svava Jakobsdóttir
„Ó það sækir að manni of margt um dagana, og auk þess er mannsævin of löng.”
-Málfríður Einarsdóttir
„Þótt mér sitthvað þætti að
-Þótt ég kenndi ama
á langri ævi ég lærði það
að láta mér standa á sama.”-Halldóra B. Björnsson
Endilega sendu mér línu ef þú átt skemmtilega tilvitnun í kvenkyns skáld! Hér á Facebook.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.