(Þessi grein birtist fyrst 14.desember 2011)
Ég er femínisti
Ég er femínisti og ég er kona. Ég er femínisti sem þolir ekki að þrífa, sem hefur áhuga á pólitík, takmarkaðan áhuga á barneignum og hjónabandi, sem gleymir stundum að raka sig undir höndunum daglega, alin upp af einstæðri móður og ber meira að segja hennar nafn sem eftirnafn og ég er femínisti sem yrði seint valin sem keppandi í einhverskonar fegurðarsamkeppni.
En ég er líka femínisti sem hefur áhuga á tísku, hönnun, förðun, útliti og eldamennsku og bakstri.
Ég er femínisti sem finnst gaman að því að heyra einstaka Hollywood-slúður og horfi meira að segja stundum á Keeping up with the Kardashians.
Ég er femínisti sem er algjörlega laus við biturð lang flesta daga og sem finnst (langflestir) karlmenn, langt frá því að vera það versta undir sólinni.
En allt þetta hefur lítil sem engin áhrif á femínískar skoðanir mínar og ekkert af þessu dregur úr trúverðugleika mínum sem femínista.
Enda eru til femínistar sem hafa aðrar skoðanir, áhugamál og útlitseinkenni en ég og hafa fengið öðruvísi uppeldi en ég fékk. Það sem gerir mig og okkur hin að femínistum er hin sterka trú okkar á það að allir menn eigi að vera jafnir á allann hátt.
Svona líta femínistar út:
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.