Um helgina var frumsýnt glænýtt verk í Þjóðleikhúsinu – Svartur hundur prestsins.
Verkið er eftir rithöfundinn Auði Övu Ólafsdóttur, sem m.a. er þekkt fyrir bók sína Afleggjarann en Svartur hundur prestsins er fyrsta leikritið sem hún skrifar og vonandi ekki það síðasta.
Um er að ræða frábæra frumraun leikskáldsins. Það er kraftur í sýningunni og innihald verksins hefur margar skírskotanir. Í stuttu máli fjallar verkið fjölskyldu sem kemur saman í vöffluboð og svo samskipti fjölskyldunnar. Húmorinn er aldrei langt undan rétt eins og umhugsunarefnin.
ANGIST YFIR MISSKILNINGI
Það er ríkjandi tilfinning í gegnum alla sýninguna hvernig tungumálið virðist ekki vera nóg fyrir fjölskyldumeðlimina til þess að útskýra meiningar sínar eða tilfinningar. Það vakti áhuga minn hvernig leikskáldið leikur sér með þetta og hvernig samtölin verða oft á tíðum súrrealísk en samt fullkomnlega skiljanleg áhorfandum. Um leið horfir maður upp á angist persónanna í leikritinu yfir öllum misskilningum og þörfinni til þess að hafa betri stjórn á því í hvaða farveg samræðurnar vilja renna. Að þessu leyti finnst mér einnig sem leikstjórinn, Kristín Jóhannesdóttir, hafi náð að laða fram “hið ósagða” mjög vel…en það er einnig í gegnum danshreyfingar sem áhorfandinn fær túlkað hið ósagða og tónlistin ýtir undir merkinguna.
Umgjörð sýningarinnar er einföld og hentar einkar vel á sviðinu sem er í Kassanum. Leikmynd Elínar Hansdóttur myndlistarkonu leggur áherslu á slétt og fellt yfirborðið en eftir því sem við komumst nær karakterunum, opnast leikmyndin meira og sýnir ryk og ló og þar með óhreinindin sem liggja á bak við yfirborðið. Oft er minna meira og þótt leikmyndin sé einföld felur hún í sér ýmsar víddir og virkar vel með lýsingunni sem mér fannst mjög falleg. Einnig fannst mér búningarnir passa vel inn í einfalda umgjörðina og túlka persónurnar vel.
SNARBILAÐAR KONUR AÐ KIKNA UNDAN ÁLAGI
Það má reyndar segja að sýningin sé einföld að öllu leyti, t.d. gerist hún í rauntíma og á einum stað. Þrátt fyrir þetta reikar hugur persónanna, og þá sérstaklega móðurinnar, aftur í tímann og víða og verkið snýst að miklu leyti um minningar. Áhorfandi fylgist þannig með því hvernig sameiginlegt minni persónanna bendir á misbresti í túlkun þeirra á eigin raunveruleika.
Það er Kristbjörg Kjeld sem leikur aðalhlutverkið og má segja að hún eigi þarna enn einn leiksigurinn. Allir leikarar eru fantagóðir: Margrét Vilhjálmsdóttir, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson og Baldur Trausti Hreinsson, ganga eins og beint inn í hlutverkin og skila þeim vel.
Þó verður að segjast að Kristbjörg haldi sýningunni uppi á vissan hátt. Kannski er það persóna hennar sem er svona skemmtileg og áhugaverð, en hún er einstök leikkona og nær að draga áhorfendur inn í þennan heim.
Það eru mikil höft í öllum persónum, nema í persónu Kristbjargar. Þrátt fyrir að eiga koma fyrir sjónir sem elliær finnst manni að hún sé heilbrigðust allra. Vantraust og dómharka virðast einkenna hinar persónurnar. Nema kannski bróðurinn sem leikinn er af Atla Hrafni, hann virðist vera sá eini innan fjölskyldunnar sem leyfir sér visst frelsi. Hann er menntamaður og kemur fram með vísindalegri nálgun og það fer ógurlega í taugarnar á systrum hans. Vangaveltur um fjölskylduna og erfðatengsl ráða ríkjum –eru erfðatengsl fjölskyldutengsl eða minningar? Hvað sameinar fólk?
Það er áhugavert hvernig konurnar eru látnar vera næstum snarbilaðar, eins og þær séu að kikna undan álagi við að reyna að vera ábyrgar og fullkomnar og það er ósköp fyndið að fylgjast með bældri hegðan þeirra. Það er líka kostulegt að fylgjast með Njáli tengdasyni, enda virkar hann einnig bældur, næstum kúgaður. Það eru sem sagt miklar vangaveltur sem maður gengur með út úr leikhúsinu en þrátt fyrir það er verkið allt á mjög léttum nótum.
Komin er fram ný og kvenlæg rödd í raðir leikskálda og ég fagna því!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.