Í sumar höfum við fjölskyldan haldið okkur mestmegnis í Reykjavík og nágrenni, en þrátt fyrir það og rigninguna sem virðist engan enda ætla að taka höfum við gert ýmislegt skemmtilegt sem ég get mælt með.
Söfn eru skemmtileg!
Söfn í Reykjavík eru mörg og ættu allir að finna söfn við sitt hæfi, við systir mín skelltum okkur í dagsferð innan 101. Við keyptum passa á 3 söfn á 1500 kr. Passinn gildir á Listasafn Íslands, Safn Ásgríms Jónssonar og í Þjóðmenningarhúsið sem hefur að geyma margar gersemar úr íslenskri myndlist, handrit og söguleg verðmæti.
Að koma í Safn Ásgríms Jónssonar að heimili hans á Bergstaðastræti 74 var dásamleg og sérstök upplifun sem ég mæli með. Listasafn Íslands stendur einnig alltaf fyrir sínu og má núna sjá þar magnaða sýningu Söru Riel, “Memento Mori” , sýning sem enginn ætti að missa af. Í Þjóðmenningarhúsinu mætast gamlir og nýjir tímar, við byrjuðum í handrita-og sögudeildinni í kjallaranum og fikruðum okkur upp í íslenskri myndlist og sögu þar til við komum efst í rjóðrið, settumst í brjósta-baunapúða og fylgdumst með myndbandi af fóstri í móðurkviði, önnur eins slökun er vandfundin og reyndist okkur erfitt að standa aftur upp. Til að skoða söfn og sýningar í boði mæli ég með Safnabókinni sem fæst á söfnum og hér á netinu.
Fjölskylduskemmtun þarf ekki að kosta neitt
Þar sem ég bý í miðbænum þá er nánasta svæði oft fyrir valinu þegar þarf að hafa ofan af fyrir börnunum, eitt það skemmtilegasta sem þau gera er að fara í lautaferð og leika sér í Hljómskálagarðinum, á Miklatúni eða fara í göngutúr um gömul varnarvirki og skóglendi í Öskjuhlíð þar sem hægt er að spinna margar ævintýralegar sögur á leiðinni.
Áhugamál litla og stóra stráksins míns sameinast í Hjartagarðinum þar sem sá eldri leikur sér á hjólabretti á meðan sá yngri hjólar á litla sparkhjólinu sínu og rennur sér í rennibrautinni á meðan ég drekk latte, slúðra við vinkonur og les blöðin. Hvort sem það er sól eða rigning þá eru sundlaugarnar alltaf heitar og ódýr skemmtun fyrir börnin, við förum í sund 3-4 sinnum í viku yfir sumartímann, það er líka sérlega praktískt að baða allan barnaskarann á einu bretti..
Hvalaskoðun og dagsferðir í rigningu
Það er sagt að maður sjái fleiri hvali í rigningu og súld, það er því tilvalið að skella sér með fjölskylduna í hvalaskoðun þegar rignir, það kostar sitt en ef maður er sniðugur má finna afslætti og tilboð í hvalaskoðun reglulega.
Fjöruferðir
…eru skemmtilegar í rigningu, að ganga út að vita í Gróttu er spennandi og vel búinn er hægt að skemmta sér vel við að skoða skeljar, steina og krabba í fjörunni. Við fjölskyldan skelltum okkur líka í dagsferð í Hvalfjörð í látlausri rigningu, heimsóttum Bjarteyjarsand og Þórisstaði sem eru fjölskylduvænir ferðastaðir með húsdýrum, vistvænum mat og allskonar þjónustu í boði, bátsferðir, gönguferðir og fjöruferðir. Fegurð Fossárrétta var á sínum stað og þótti krökkunum mjög spennandi að klifra alla leið upp í turn á Hallgrímskirkju í Saurbæ. (skemmtun sem er líka í boði í Hallgrímskirkju Rvík)
Þó það sé kósý að vera heima á náttfötunum þegar rigning og grámi umvefja okkur þá er það ekki afsökun til að fara ekki út að gera eitthvað skemmtilegt, enginn er verri þótt hann vökni.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.