Helga Unnarsdóttir leirkerasmiður rekur lítið sætt listmunahús í Rangárseli 8 í Breiðholti þar sem hún er með verkstæði og aðstæðu til að skapa fegurð fyrir auga og sál.
Ég kíkti á verkstæðið til hennar um daginn þar sem ég var búin að fara nokkrum sinnum til vinkonu minnar sem á töluvert af listmunum eftir Helgu og var ég svo hrifin af einum bollanum sem vinkona mín átti í stelli eftir Helgu að ég gekk út einn daginn frá vinkonu minni með bolla í töskunni (að sjálfsögðu sem gjöf).
Helga er menntaður íþróttafræðingur en listin hefur alltaf kallað á hana og kláraði hún grunnámið í myndlist í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti áður en leið hennar lá í Listháskóla Íslands. Helga lærði einnig í Ungverjalandi þannig að hún hefur kynnst listinni frá mörgum sjónarhornum í gegnum árin.
Með árunum er ég alltaf að verða hrifnari af því að kaupa íslenskt handverk þegar ég fer í afmæli eða veislur, langar að gefa tækifærisgjafir og fleira og gleður það alltaf hjarta mitt að sjá hversu hæfileikaríkir íslendingar eru í handverki.
Helgu er einstaklega hress persónuleiki og það sést á henni að hún skapar hlutina sína með gleði í hjarta og leggur allt sitt í verkin sín.
Helga tekur að sér að gera sérteiknuð kort og einnig er hægt að fá keramik hluti frá henni með persónulegum gildum eftir pöntunum.
Ég mæli með að kíkja upp í Breiðholt til hennar Helgu og sjá fallegu hlutina hennar. Ég varð sérstaklega skotin í hrútshornum úr keramiki – ætluð sem skotglös og í stíl var hægt að kaupa tappa á vínflösku sem mér fannst einstaklega töff.
Ef þig langar að sjá meira eftir Helgu þá er hún að sjálfsögðu á fésbókinni góðu.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.