Eitt af þeim málefnum sem mér hefur þótt erfitt að gera upp hug minn gagnvart er staðgöngumæðrun. Ég hef enn ekki getað ákveðið hvor hliðin mér finnst rétt og hvor mér finnst röng. Eða getað ákveðið hvort þetta málefni sé svona svart og hvítt.
Eins og með flest önnur málefni sem framkalla svona ruglingslegar tilfinningar þá ákvað ég að leita mér upplýsinga svo ég geti tekið um það upplýsta ákvörðun.
Um staðgöngumæðrun:
Fólk sem leitar eftir staðgöngumæðrum er í langflestum tilvikum fólk sem einhverra hluta vegna getur ekki eignast barn upp á eigin spýtur.
Ástæður þess geta verið margvíslegar, til dæmis ófrjósemi móður, það að heilsa móður útilokar að hún geti gengið með börn eða það að meðganga væri beinlínis lífshættuleg fyrir konuna sem um ræðir. Þar að auki þurfa samkynhneigðir karlmenn að leyta til staðgöngumæðra vilji þeir eignast sér blóðtengd börn. Í einhverjum tilvikum er þó leitað til staðgöngumóður vegna þess að foreldrunum hentar einhverra hluta vegna ekki að móðirin gangi með barnið.
Málið endaði með því að hún strauk af spítalanum og líffræðilegur faðir barnsins fékk forræði yfir barninu.
Uppruni staðgöngumæðrunnar er nokkuð umdeilt fyrirbæri og sumir vilja jafnvel halda því fram að María Mey hafi verið fyrsta staðgöngumóðirin, þar sem hún gekk með barn guðs fyrir hann. En tæknilegu framfarirnar sem urðu til þess að staðgöngumæðrun eins og við þekkjum hana í dag varð möguleg komu fyrst í ljós árið 1978 þegar fyrsta barnið sem varð til í gegnum tæknifrjóvgun fæddist.
Tvö tilfelli sem réðu úrslitum
Það var svo árin 1985 og 1986 sem ýmsar siðferðilegar spurningar varðandi staðgöngumæðrun fóru að koma upp þá aðallega vegna mála sem kallast The Baby Cotton Case og The Baby M Case.
The Baby Cotton Case átti sér stað í Bretlandi þegar bresk kona gerði samning við bandarísk hjón um að ganga með barnið þeirra fyrir þau. Þegar barnið fæddist kröfðust félagsmálayfirvöld í Bretlandi þess þó að staðgöngumóðirin (sem var einnig líffræðileg móðir barnsins) myndi fara heim með barnið. Málið endaði með því að hún strauk af spítalanum og líffræðilegur faðir barnsins (eiginmaðurinn sem gerði samgning við hana til að byrja með) fékk forræði yfir barninu.
The Baby M Case átti sér stað í Bandaríkjunum en þar neitaði staðgöngumóðirin, sem var einnig líffræðileg móðir barnsins, að gefa frá sér barnið eftir að það var fætt. Hún endaði á því að ræna barninu og ferðast með það á milli hótelherbergja með manni sínum í þrjá mánuði áður en þau náðust. Eftir það var úrskurðað að hún og llíffræðilegur faðir barnsins væru réttmætir foreldrar barnsins en hann fékk samt sem áður forræðið þar sem það var talið vera best fyrir barnið. Eftir þetta var staðgöngumæðrun bönnuð í New Jersey.
Hvað mælir með staðgöngumæðrun?
Staðgöngumæðrun er vissulega mjög jákvætt fyrirbæri fyrir þau pör sem ekki geta eignast börn og geta einhverra hluta vegna ekki hugsað sér að ættleiða, eða þeim er ekki leyft að ættleiða, en ástæður fyrir því geta verið margvíslegar og þurfa engan vegin að þýða að tiltekið fólk sé efni í lélega foreldra.
Staðgöngumæðrun er talin nokkuð einföld leið fyrir pör sem ekki geta átt börn. Það hefur ekki verið jafn mikið ferli í kringum staðgöngumæðrun líkt og ættleiðingar og oft er jafnvel einhver í fjölskyldunni eða jafnvel vinkonur sem bjóðast til þess að ganga með barnið og njóta þess vegna jafn vel enn betur að vera í samvistum við barnið eftir að það er fætt. Þessi tilhögun getur jafnvel orðið til þess að tengsl á milli foreldra barnsins og staðgöngumóðurinnar styrkist í ferlinu.
Sumar konur geta ekki gengið með börn en eru samt sem áður frjóar og gefur þessi leið þeim tækifæri til þess að eignast börn sem eru líffræðilega börnin þeirra þó að önnur kona hafi gengið með það og það sama á við um samkynhneigða karlmenn. Augljóslega geta þeir ekki gengið með börn og er þessi leið þess vegna þeirra eina leið til þess að eignast börn sem eru líffræðilega þeirra börn.
Hvað mælir á móti staðgöngumæðrun?
Eins og áður sagði hefur staðgöngumæðrun lengi verið umdeild. Deilurnar hafa þá aðallega verið um siðferðilegu hliðina á því að „leigja út“ leg konu. Í Bandaríkjunum er staðgöngumæðrum greitt allt að 50.000 dollurum, eða um það bil sex milljónir króna, í sumum tilvikum fyrir að ganga með barn.
Þetta er upphæð sem gæti breytt lífi margra til hins betra og er oft talað um að þegar svona stórar fjárhæðir séu í spilinu sé erfitt fyrir þá sem eiga í fjárhagskröggum að segja nei, sama þó viðkomandi viti að tilfinningaleg byrði verði of mikið fyrir hana að höndla.
Það hafa margir líkt staðgöngumæðrun við vændi eða mannsal
Eðlilegt þykir að á meðgöngu kvikni upp tilfinningar hjá staðgöngumóðurinni gagnvart lífinu sem hún gengur með og þegar staðgöngumóðirin hefur jafnvel aldrei gengið með börn áður getur hún varla vitað hvaða tilfinningar það verða. Þó að einhverjar staðgöngumæður endurtaki ferlið aftur eftir sitt fyrsta skipti sem staðgöngumóðir er engan vegin hægt að vita, þó að staðgöngumóðirin eigi barn áður, hvaða tilfinningar vakna upp eftir að barnið kemur í heiminn.
Það hafa margir líkt staðgöngumæðrun við vændi eða mansal, með þeim rökum að þegar staðgöngumæðrun eigi sér stað sé vel stætt fólk að nýta sé stöðu þeirra sem eru verr staddir fjárhagslega og að leiga á líkama sé alltaf vændi, sama hver tilgangurinn með leigunni kunni að vera. Þeim finnst þannig á þrá para til að eignast barn sé settur ofar réttindum og hag hugsanlegrar staðgöngumóður.
Persónulega finnst mér meira mæla á móti staðgöngumæðrun heldur en með og þá helst þegar litið er til þeirrar staðreyndar að það eru ekki sjálfsögð mannréttindi að eignast barn, hvað þá í þeim tilvikum þegar staðgöngumæðrun snýst að mestu um það að eignast blóðskylt barn. Það eru sem betur fer aðrir kostir í boði fyrir langflesta og hvað hin málin varðar er spurning hvort við viljum leggja það á okkur að setja okkar hamingju ofar annarra velferð.
Staðgöngumæðrun er viðkvæmt málefni og okkur ber að fjalla um hana sem slíka. Við skulum ekki vaða uppi með látum bara af því okkur finnst hugmyndin hljóma vel eða illa. Eins og með allt annað skulum við kynna okkur málefnið fyrst og mynda okkur svo skoðun út frá staðreyndum.
Endilega segðu okkur hvað þér finnst um þetta mál á facebook síðunni okkar!
[poll id=”45″]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.