Sögur af framhjáhaldi þykja almennt nokkuð krassandi en fáar sögur af þessu tagi eru jafn flatar og furðulegar og sagan af framhjáhaldi Günters K með henni nöfnu minni Margréti.
Heimurinn fékk að vita af sambandinu fyrir um áratug síðan þegar ferðataska, full af myndum og nákvæmum skrásetningum, fannst í yfirgefinni íbúð einhversstaðar í Þýskalandi en fram að því hafði eflaust ekki nokkur lifandi sála vitað af þessu sambandi þeirra.
Myndirnar sýna Margréti við hinar ýmsu aðstæður og með þeim fylgja skráningar, nákvæmar dagsetningar og tímasetningar, hvað parið hafði verið að gera og hvar. Sá sem hélt utan um skráningarnar var bissnisskarlinn Günter K en ástarsamband þeirra Margrétar stóð frá maí 1969 fram í desember 1970.
Allt innihald ferðatöskunnar, myndirnar; ásamt skráningum og fylgihlutum, er nú til sýnis í White Columns galleríinu í New York en fram til þessa hefur sýningin aðeins verið í Þýskalandi. Það er að segja síðustu fimmtán árin.
Það sem er afar sérstakt við þetta allt saman er hversu nákvæmur ástmaðurinn var við skrásetningarnar. Hann skráði gersamlega ALLT. Meira að segja fór hann yfir forleikinn þeirra í fáránlega nákvæmum smáatriðum. Þess ber að geta að Günter starfaði meðal annars við bókhald og eitt af því sem vakti áhuga sýningarstjórans er hvernig hann skrifar á víxl í rauðu og svörtu bleki eftir því sem við átti. Á myndinni hér að ofan má sjá kjól sem Günter keypti fyrir Margréti og auðvitað skráði hann nákvæmlega hvar hann keypti kjólinn og hvað hann kostaði. Svo er Margrét mynduð í kjólnum.
Myndirnar af Margréti skipta hundruðum en Günter sést ekki á einni einustu. Sýningarstóri og aðrir sérfræðingar segjast greina áberandi stjórnunarþörf hjá manninum sem jafnframt var heldur karlmannlegur. Karlmannlegt kontrólfrík semsagt.
Í safninu er ekki aðeins að finna myndir af Margréti heldur líka neglur og hárlokk af henni, allskonar kvittanir og miða og verðmiða fatanna sem hann keypti handa henni.
Í desember 1970 taka málin að þróast í þá átt að Margrét fær nóg af sambandinu og biður hann um að finna sér aðrar konur til að sofa hjá, sem hann og gerir. Hann skrásetur það allt með sama hætti og sambandið við Margréti en lýsingarnar eru jafnvel þurrari og hlutlægari en áður (ef það var þá hægt). Seinna kemur skráning um að Margrét hafi skipt um skoðun, orðið afbrýðissöm og lokaskráningin lýsir því hvernig þau njóta ásta saman. Hvað gerðist svo á milli þeirra Günters og Margrétar veit enginn.
Sýningin hefur algjörlega slegið í gegn enda margt sem gerir hana áhugaverða. Þó ekki væri nema bara þýska nákvæmnin í þessu öllu saman, sokkabuxnablætið og rauða túberaða hárið hennar Margrétar.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.