Síðasta laugardag var fjölmenningardagur í höfuðborginni og það má segja að nóg hafi verið um að vera.
Þrátt fyrir að veðrið hafi ekki verið eins og best verður á kosið með sól og sumari var mætingin frábær. Húllumhæið hófst klukkan eitt við Hallgrímskirkju, þar sem Jón Gnarr borgarstjóri setti hátíðina, en þaðan var gengið niður að Ráðhúsinu í Reykjavík.
Fjölmenningargangan verður glæsilegri með hverju ári, því það eru ekki aðeins einstaklingar af erlendu bergi brotnir í göngunni heldur einnig íslenskt fólk sem vill styðja málstað útlendinga á Íslandi. Það getur verið einkar mikilvægt að sýna þessu framtaki stuðning með því að taka þátt í göngunni, eða bara fylgjast með á kantinum, eins og sagt er…
Litríkt samfélag er skemmtilegra
Það er ekki síður gaman að sjá hversu mikið er lagt upp úr þessum degi af hálfu aðfluttra Íslendinga sem sýnir okkur hinum um leið hversu mikið litríkara og skemmtilegra samfélagið verður fyrir þeirra tilstilli. Það var mikið um fallega þjóðbúninga og fána í göngunni og þarna var lúðrasveit í fararbroddi sem m.a. spilaði hið rammíslenksa lag “Öxar við ána” ásamt fleiru hressandi.
Þegar komið var í Ráðhúsið voru þar básar með ólíkum vörum. Þetta var svolítið eins og “menningarlegt Kolaport” eða leyfist að segja það? Það er allavega vel meint… Því þarna voru handunnar vörur frá ýmsum löndum og ilmandi góður matur í boði. Þarna var fólk tilbúið til þess að spjalla um uppruna sinn og menningu og deila upplýsingum um land og þjóð þaðan sem þau höfðu komið. Það var hægt að fá upplýsingar um köfunarparadísir, hjálparstörf og skiptinám, um listir eða hvað annað sem forvitnin vildi vita. Einnig gátu börnin fengið andlitsmálningu og blöðrur og þarna voru meira að segja trúðar!
Tónleikar og leiklist
Í Tjarnarbíói, sem er beint á móti Ráðhúsinu, var einnig afskaplega þétt og flott dagskrá. Þar var hægt að sjá magadans, salsadans o.fl, skella sér á tónleika, leiksýningu eða fjöltyngdan ljóðaupplestur og allt saman ókeypis. Sagði ekki Megas að “allt sem er ókeypis er best”… Allavega eitthvað nálægt þessu og það má í raun og veru segja að þannig hafi það verið.
Það var allavega ofsalega gaman að sjá leiksýninguna “Assassinating the foreigner” sem var alveg frábær – og verður væntanlega sýnd aftur síðar. Það er allt gott um fjölmenningardaginn að segja og vonandi að þessi hátíð setji svip sinn á menningarlífið í Reykjavík um ókomin ár.
Hér eru myndir sem teknar voru á fjölmenningardaginn og nokkrar þeirra voru fengnar að láni hjá Dóra Sig:
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.