Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem hefur átt leið fram hjá Vatnsmýrinni að þar hefur verið reist heilt sirkus-þorp!
Ævintýraleg og marglituð tjöld breiða úr sér við hlið Norræna Hússins og minna á sælgætismola á annars fremur látlausu háskólasvæðinu.
Fyrir helgi fór ég að sjá sýninguna Hang on sem er sett upp af írska sirkushópnum Fidget Feet. Hópurinn samanstóð af tveim dönsurum/loftfimleikamönnum, einum plötusnúði – svo var þarna sérkennileg róla og nokkur ljós. Það var allt og sumt. Meira þurfti heldur ekki til.
Það sem þessir tveir dansara gátu ekki gert með líkamanum var takmarkað. Mögnuð fimi og styrkleiki þeirra gerði þeim kleift að gera ótrúlegustu hluti í loftinu. Plötusnúðurinn spilaði flotta elektróníska tónlist undir og náði virkilega að auka stemmninguna. Ég labbaði út eftir á, hugfangin og dálítið ringluð, enda hálferfitt með að trúa því að mannslíkaminn geti næstum því afskrifað þyngdaraflið.
Sýningarnar á Sirkushátíðinni í Vatnsmýrinni eru fjöldamargar og eitthvað við hæfi allra. Það er sjaldan sem önnur eins sirkusveisla er í boði hér á Íslandi og því tilvalið að nýta tækifærið. Upplýsingar um miða, tímasetningar og annað má finna á Miði.is og hjá Norræna Húsinu í síma 551-7030
Sirkusþorpið stendur til sunnudagsins 14. júlí og eru sýningar daglega frá hádegi og fram á kvöld.
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.