Á Íslandi ríkir áður óheyrt prjónaæði og allt gott um það að segja (þó mér finnist orðið nóg um lopapeysu-faraldurinn – er ég mögulega eini íslendingurinn sem ekki á sauðlitaðan og útúrprjónaðan ullarlagð í fórum mínum ?).
Margir vilja meina að þetta æði megi rekja til hrunsins og nostalgíukastsins sem landinn tók í kjölfar þess. En gætu ræturnar verið dýpri ?
Skoðum þetta: Fyrir nokkrum árum fór að bera á því að prjónles var að finnast á ólíklegustu og undarlegustu stöðum en þó oftar í borgarlandslagi en ekki.
Þetta virtist poppa upp hvar sem var og hvenær sem var en margir vilja meina að rætur þessarar hreyfingar séu að finna hjá hópi Feminískra aðgerðasinna í Texas sem byrjuðu á þessari umhverfislist/gjörningum árið 2005. Síðan hefur hreyfingunni heldur betur vaxið fiskur um hrygg og um heim allan er að finna hópa sem fara út í skjóli nætur og knit-tagga eða knit-graffa.
Önnur tegund prjónlistamanna prjónar heilu listaverkin en ekki endilega í skjóli nætur á annara manna eigur. Þar man ég t.d. eftir hinum íslenska Gjörningklúbbi eða the icelandic love corporation, sem vann meðal annars prjónverkið sem Björk Guðmundsdóttir notaði í tengslum við VOLTA.
Annar íslenskur prjóna-gjörningur átti sér stað í tengslum við opnun Siglufjarðarganganna, þar tókst vel til og almenn þáttaka almennings var í tiltækinu. Hinsvegar veit ég ekki hvað varð um þann 17km langa trefil.
Mig dreymir um að rekast einhverntímann á knit-tag eða knit-graff á göngu minni um borgina því mér finnst þetta svo skemmtilegt tvist á hversdaginn. Ég lifi í þeirri von að einhversstaðar séu prjóna-óðar konur og karlar að hittast í skúmaskotum og skipuleggja aðgerðir.
Ég mun í framhaldinu vera örlát á myndefni og vona að þar geti ég kveikt einhverja neista.

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.