Á morgun, laugardaginn 4. febrúar, mun Íslenski dansflokkurinn frumsýna verkið Mínus 16 eftir danshöfundinn Ohad Naharin og verður sýningin haldin á Stóra sviði Borgarleikhússins en verkið hefur gert mikla lukku og farið sigurför um heiminn.
Ég skellti mér áðan á rennsli á sýningunni og ég held varla vatni yfir þeirri upplifun sem ég varð fyrir.
Fyrsta atriðið byrjar kröftulega þar sem dansararnir sýna ruddalegar en um leið mjúkar hreyfingar þar sem þeir svífa liðalaust um sviðið og ná þeir að fanga augað á þokkafullan hátt.
Í öðru atriði má sjá stórkostlegan dans þar sem flytjandanum tekst að kítla hláturtaugarnar og var gaman að sjá hvernig dans getur verið glettinn.
Fyrir þá sem hafa gaman að klassískri túlkun á dansi var eitt atriði sem snerti við mér sérstaklega, en þar var dansaður dúet og hreyfst maður með hverri hreyfingu sem dansararnir sendu út í salinn.
Það sem mér fannst skemmtilegast við sýninguna var að hún brýtur múra á milli flytjenda og áhorfenda og er dansinn ekki bara heillandi heldur er tónlistin hreint út sagt frábær. Einnig er þessi sýning klárlega fyrir mjög breiðan aldurshóp og myndi ég ekki hika við að taka táninginn með mér á sýninguna.
Samhliða sýningunni mun Íslenski dansflokkurinn bjóða nemendum úr 8.-10. bekk á stutt námskeið í nútímadansi í Borgarleikhúsinu. Markmiðið með þessum námskeiðum er að kynna listdans fyrir nemendunum og gefa þeim kost á að upplifa listgreinina af eigin raun.
Ef þig hefur lengi langað að fara á danssýningu en aldrei látið verða af því, þá mæli ég hiklaust með þessari sýningu, en hún á eftir að slá í gegn hjá áhorfendum sama hvort þeir eru byrjendur í dansáhorfi eða lengra komnir.
Hér má sjá sýnishorn úr sýningunni.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=TvBQytMHAuY[/youtube]Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.