Í makindum mínum sat ég úti á svölum í morgun og var að sötra fyrsta kaffibolla dagsins þegar ég sé þrjú ungmenni klædd í bleyjur utan yfir buxurnar sínar og undarleg tákn í andlitinu að stjórna umferðinni.
Fyrsta hugsun mín var að nú hefði ég líklegast gleymt að vakna þegar ég fór framúr… En svo rann upp fyrir mér ljós – Í dag er busavígslan semsagt! Það er opinberlega komið haust!
Busavígslur hafa í gegnum tíðina oft verið mjög umdeildar og stundum réttilega svo. Það fer eftir því hvaða skóla viðkomandi busi ákveður að hefja nám við, hversu brútal þær eru. Menntaskólinn í Reykjavík er líklega með- að mér vitandi- sakleysislegustu busavígsluna þar sem busarnir þeirra eru hressilega tolleraðir af böðlunum, á meðan böðlar þeirra skóla sem fara svæsnar í sakirnar taka hlutverk sitt jafnvel einum of alvarlega.
Það að maka vaselíni og hvítlauksdufti í hár busanna, keyra með aumingja greyin út í sveit og skilja þau eftir og láta þau innbyrða “gourmet” rétti eins og hafragraut blandaðann saman við kindablóð og lýsi eru sögur sem ég hef persónulega heyrt frá útkeyrðum busum.
En svo ég tali nú út frá eigin reynslu af busavígslu og annarra í kringum mig, þá var spennublandin tilhlökkun sem fylgdi þessum degi. Nú var ég loksins busi! Fyrir mér lá að leysa af hendi allskyns líkamlegar og andlegar þrautir, útkrotuð og hundblaut og á leiðarenda þurfti ég að sverja eið sem þurfti að vera búin að læra utanbókar frammi fyrir yfirböðli skólans. Manndómsvígsla sem endaði á því að nú var ég ekki lengur unglingur í gagnfræðaskóla, heldur fullorðin manneskja í fjölbrautarskóla!
Lífið var byrjað!
Auðvitað eru alltaf undantekningar og allt getur farið út í öfgar á slæmann hátt en ég held að flestir hugsi til sinnar busavígslu með hlýju í hjarta og muni skemmtilegann dag fullann af “smá” kvikindisskap.
Í dag er hin árlega busavígsla skólans hérna á svæðinu farin að hafa sama status og Lóan hefur á vorin: Haustboðinn er mættur á svæðið!
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.