Þær sem fylgdust með Kastljósinu í fyrradag sáu skelegga konu að nafni Ellen Guðmundsdóttir koma þar fram og ræða hugmyndir sínar varðandi graffitílist, forvarnir og unglinga.
Ellen á sér draum um að þeir unglingar sem leggja fyrir sig graffitílist, eða hitt…krota á veggi, geti átt sér samastað þar sem þeir fá að sýna verkin sín og læra meira um graffití.
Hver er Ellen Guðmundsdóttir?
Ég er fyrst og fremst atorkukona sem hef áhuga samfélagsþróun og ber hag unglinga fyrir brjósti. Ég hef reynslu af listum þar sem ég hef bæði verið í hönnunarnámi í Iðnskóla Reykjavíkur og listnámi í Fjölbraut Breiðholti ásamt Myndlistarskóla Reykjavíkur.
Ég er með stúdentspróf frá Fjölbraut Ármúla (félagsfræðibraut) lagði stund á sálfræðinám í Háskóla Íslands eitt ár og fór síðan yfir í félagsfræði í sama háskóla með áherslu á afbrotafræði og frávikshegðun… núna er ég reyndar í hlé frá náminu og vil ég helga mig þessu verkefni og starfa með unglingum á listrænum grundvelli. Þörfin er mikil og ég hef 100% trú á þessu.
Hvernig fékkstu áhuga á graffitímenningu?
Hef alltaf haft áhuga á flestu sem tengist listum en graffið er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og hefur alltaf verið. Ég er síðan svo heppin að sonur minn hefur áhuga á þessu líka og það var þá sem að ég fór virkilega að spá í þessu í þeim tilgangi — hvað sé hægt að gera fyrir þennan þennan hóp sem er að byrja að stunda graffití. Við Flóki sonur minn (14 ára) erum við að skoða ýmislegt sem tengist þessu, t.d. áhöld og þekkta listamenn í geiranum. Basquat er uppáhalds grafflistamaðurinn minn og fór hann einmitt með list sína inn í sýningasali með flottri útkomu – oft kallað“ post-graffití“
Hvað kom til að þú ákvaðst að fara af stað með þetta verkefni?
Ástæðan er sú að veggjakrot er vandamál í borginni. Samkvæmt fræðunum á samt ekki að kalla þetta veggjakrot heldur graffití en höldum okkur við það því almenningur þekkir það hugtak. Oft er talað um að það sé samhengi á milli þess hversu mikið er krotað á veggi og hvernig ástandið er í þjóðfélaginu. Kreppan skellur á og veggjakrotsvandamálið var sem mest á árunum 2007-2008 – sem ætti kannski að segja manni eitthvað. Ástandið er aftur að versna núna og veggjakrot kostar borgina, fyritæki og einstaklinga morðfjár. Veggjakrot er tjáning oft í formi andúðar og náskylt anarkisma ,skilaboðin sem er verið að senda út í umhverfið er kannski eitthvað sem að fólk ætti að bregðast við. Allavega ætla ég að gera mitt besta til þess með að mæta þessum hóp og leggja mig fram um að skapa vettvang götumenningar en um leið sýninga, námskeiða, félagsstarfs og forvarna.
Hvernig sérðu fyrir þér að verkefnið geti skilað flottum árangri?
Árangurinn er augljós fyrir borgina, bara fjárhagslega. Svo árangri fyrir götumenningu almennt, að þessum hóp sé mætt eins og öðrum hópum. Unglingarnir fari að finna til samábyrgðar og bera virðingu fyrir umhverfinu. Skili árangri fyrir listsköpun í landinu. Árangur fyrir einstaklinga að geta haft tækifæri á listsýningum með raunverulegum áhorfendum. Að unglingarnir upplifi að þeir hafi afrekað eitthverju. Árangur með þeim hætti að geta verið til fyrirmyndar fyrir aðrar borgir þar sem veggjakrot er vandamál.
Hver væri draumastaðsetning Graffiti Reykjavík?
Á góðum stað í miðborginni.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.