Það eru heitar umræður á netheimum í tilefni af kvenréttindadeginum sem var 19 júní síðastliðin. Auðvitað er enn mörgu ábótavant en við megum ekki gleyma því að Ísland er komið lengra en flest lönd í jafnréttisbaráttu sinni.
Mér brá nokkuð um daginn þegar ég var í London og vinkona mín sem var í atvinnuleit var að lýsa því hvaða kröfur væru gerðar til kvenna í þeim störfum sem hún sótti um.
Samkeppnin um störf í London er gífurleg og ef maður ætlar sér að landa góðu djobbi þarf maður að hafa umboðsmann sem sér um að bóka starfsviðtöl. Vinkona mín var að sækja um skrifstofu- og móttökustörf og fór í 3-5 viðtöl á dag, þeyttist um borgina þvera og skipti um föt á salernum kaffihúsa milli viðtala því það var ekki sama hvernig hún var klædd fyrir hvert viðtal. Þetta ferli minnti mig skuggalega mikið á það þegar ég var fyrirsæta og þurfti að passa inn í hina og þessa ímynd en mér fannst það engan veginn passa þegar verið er að sækja um skrifstofustarf.
Vinkona mín þurfti ekki einungis að skila inn ferilskrá heldur líka svara 10-15 bls spurningalistum fyrir hvert atvinnuviðtal og þegar þangað var komið sat jafnan fyrir framan hana hópur af fólki sem spurði hana spjörunum úr og sýndu henni jafnframt myndir af því hvernig hún ætti að vera til fara í vinnunni og hvort hún væri samþykk því.
Og hvernig átti hún að vera?
Í dragt, oftast dökkblárri með pilsi, í sokkabuxum og snyrtilegum hælaskóm, ekki of háum, með óaðfinnanlega hárgreiðslu og neglur, með neutral naglalakk, snyrtilega förðuð með rauðtóna varalit en ekki of rauðan.
Ég er ekki að grínast, henni voru sýndar myndir af því líka hvernig hún ætti EKKI að vera máluð. Og þetta erkki búið – Hún var látin máta dragt í einu viðtalinu og þá kom í ljós að hún var ekki í sömu stærð í neðri og efri part, og konunni sem fékk hana í viðtalið fannst það nú ekki nógu gott.
Það mikið sagt ef ferlið til að fá vinnu á skrifstofu eða í móttöku væri svona hér á Íslandi. Þetta minnir helst á Mad Men þættina sem gerast í karlrembusamfélagi sjötta áratugarins.
Þökkum fyrir hversu langt við erum komnar á Íslandi og höldum áfram þangað til fullu jafnrétti er náð á vinnumarkaði sem utan hans.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.