Við höfum allar sopið hveljur yfir barnanöfnum sem okkur finnast furðuleg og skrítin. Sum eru mestu ónefni meðan önnur þurfa bara að venjast.
Ég veit ekki til þess að margir foreldrar skíri dætur sínar Ljótunn í dag, eða láti soninn heita Ljótur, Hrútur eða Drengur þó að þetta séu allt “góð” og gild íslensk nöfn. Við heyrum hinsvegar ævintýraleg nöfn á borð við Aþenu, París og Angelu og allt er þetta háð tískustraumum eins og annað.
Mannanafnanefndir sjá um að samþykkja eða hafna nöfnum og þá er það upp eða ofan hvort auðvelt sé að botna í þeim niðurstöðum. Til dæmis liggur ekki í augum uppi af hverju strákur má ekki heita Skallagrímur en það skilja allir af hverju foreldrum er ekki leyft að kalla barnið sitt Lúsífer. Ég meina? Kommon. Lúsífer?
Á Nýja Sjálandi, þar sem búa talsvert fleiri en í okkar litla samfélagi, hefur mannanafnanefnd í nægu að snúast. Nöfnum á borð við “/” og “89” hefur meðal annars verið hafnað af augljósum ástæðum. Hvaða ringluðu foreldrar vilja kalla barnið sitt “/” (skástrik) eða 89?
Þá hefur nýsjálenska mannanafnanefndin líka hafnað nöfnunum Messiah (spámaður) og Duke (greifi), General (hershöfðingi) og Mr. (herra) svo fátt eitt sé nefnt. Í Svíþjóð hefur nöfnunum IKEA, Metallica og Q verið hafnað meðan þeim fannst Google bara fínt og í Egyptalandi er lítil stelpa sem heitir Facebook og önnur sem heitir Like. Ætli það sé nokkuð mannanafnanefnd þar?
HÉR er listi yfir mannanöfn sem hafa verið bönnuð á Íslandi. Ég segi guðblessiþau á inngsoginu fyrir að ýta nafninu Finngálkn út af borðinu (aumingjans barnið, kvefað að reyna að kynna sig) en skil eiginlega ekki í þessu með Skallagrím og Siv.
HÉR er svo annar listi yfir nöfn sem hefur verið hafnað víða um heim.
Gaman að þessu.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.