Ég fór á Kex veitingastaðinn við Skúlagötu í dag. Það telst nú ekki frásögum færandi nema vegna þess hve oft ég hef ætlað að fara en ekki gert það. Ég hef mikið heyrt um Kex en því miður einhvernveginn aldrei drifið mig. Nú hafði ég loks nógu ærna ástæðu til þess að fara: Sissa Ólafsdóttir ljósmyndari er með sýningu þar!
Þau sem þekkja til ljósmyndarans Sissu vita að hún er ekki þessi “týpíski” ljósmyndari, heldur listamaður. Sissa hefur ávallt verið öðruvísi ljósmyndari og mjög listræn. Jafnvel í þeim tilfellum sem hún tekur að sér að mynda börn eða brúðkaup fer hún ekki troðnar slóðir. Sýningin, sem Sissa kallar Honesty, snart taug í mér vegna þess að hún fjallar um meðvirkni. Meðvirkni er í raun og veru ekkert grín þegar maður hugsar út í það, heldur skaðsamt og niðurrífandi munstur sem getur farið mjög illa með einstaklinga og sambönd þeirra. Hér tekst Sissa í einlægni og heiðarleika á við eigin meðvirkni í gegnum list sína.
Sissa rannsakar persónuleg höft og þá óhamingju sem fylgir því að vera ekki frjáls til að vera maður sjálfur. Þrátt fyrir þessa þungu undiröldu, skín í gegnum myndirnar fegurð og frelsi. Fegurðin yfir því að vera eins og maður er og frelsið sem fylgir því að leyfa sér að vera það. Það sem mér finnst skipta mestu máli hjá listmönnum er einlægni þeirra í sköpuninni. Hér er full einlægni.
Á mörgum mynda Sissu hefur hún sett texta sem hafa snert sérstaklega við henni í gegnum ferlið að losna undan meðvirkninni. Þessir textar virka eins og áminningar, eins og þessi hér:
Say what you want and do what you will, ’cause those who mind don’t matter, and those who matter don’t mind.
Say what you want and do what you will, ’cause those who mind don’t matter, and those who matter don’t mind.
Brot úr sýningunni…
Framsetningin sýningarinnar er mjög falleg. Sissa hefur valið gömul ljósabox til að ramma myndirnar inn. Elsta boxið er frá 1800 en yngsta er frá 1930. Pappírinn sem myndirnar eru prentaðar á hafa sérstaka áferð sem gefur myndunum blæ rétt eins og þær séu málverk. Þennan blæ verður maður var við vegna þess hvernig ljósið í boxunum lýsir pappírinn. Augað eltir ljósið inn í boxin og veldur því að manni finnst sem maður standi og horfi inn um glugga. Rétt eins og maður fái að glugga inn í sálarlífið og sjá afkima þar sem ljósið er.
Sýningarsalurinn Gym og tonic hentar sýningunni vel og varð fyrir valinu vegna þess að Sissa vildi hafa slitna veggi. Það er fleira sem magnar upp upplifunina á sýningunni sem er á vissan hátt sviðsett í rýminu, með kertaljósum, réttri lýsingu og tónlist tekst að láta mann ganga inn í annan heim. Biggi Bix samdi sérstaklega tónlistina sem magnar upp stemninguna í rýminu, sem er á vissan hátt andlegs eðlis. Ég mæli með því að fólk fari og berji myndirnar augum, upplifi stemninguna í rýminu og túlki fyrir sjálft sig. Því þetta er sýning sem enginn ætti að láta framhjá sér fara!
Og ps… Kex er meganæs staður til að hengja hattinn sinn um stund, ekki síst þegar þar er svona fín sýning.
Sýningin “Honesty”stendur til 22. september.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.