Gróska er i leikhúslífi nú um mundir en þó má segja að ekki séu allir á einu máli um það hvað telst til leiklistar. Sumum finnst vera of mikið um skrýtin og leiðinleg leikrit en ég gæti ekki verið meira ósammála.
Íslensk leiklist er að þroskast og þetta er allt að koma vona ég. Ég vil allavega miklu frekar sjá skrýtin og leiðinleg verk heldur en týpísk og leiðinleg verk.
Siðan kreppan skall á hafa sumir eflaust séð meira af verkum sem eru óhefðbundin og fjalla um það sem á sér stað í samfélaginu. Notaðar eru heimildir úr veruleikanum og hefðbundið leiklistarform er brotið upp. Slík verk flokkast sem heimildaleikhús.
En ekki þurfa öll heimildaleikhúsverk að vera leiðinleg og fjalla um kreppu. Til er frægur leikhópur frá Þýskalandi sem kallar sig Rimini Protokoll. Það eru þau Helgard Haug, Stefan Kaegi og Daniel Wetzel sem mynda hópinn en þau lærðu í Giessen sem er lítill bær í Þýskalandi. Þau gera eingöngu heimildaleikhús og mörg verka þeirra eru ótrúlega spennandi.
Sem dæmi um verk á þeirra vegum get ég nefnt Mnemopark, sem var stýrt af Stefan Kaegi. Stefan, sem er frá Sviss, setti verkið upp í Zurich er ég bjó þar árið 2008. Svo auðvitað fór ég að sjá það. Þetta verk er mér enn ofarlega í huga (sem og mörg önnur verk sem ég sá þar, en leikhúslífið, já og allt listalíf blómstrar þarna úti).
Fékk venjulegt fólk til liðs við sig
Mnemopark er einskonar samfélagsspegill á lífið í Sviss. Stefan fékk til liðs við sig “venjulegt” gamalt fólk, sem ekki voru leikarar. Fólkið kom fram undir eigin nafni og hafði hvert sína sögu að segja og voru úr sitthvorum landshlutanum. Það sem þau áttu þó öll sameiginlegt var að þau höfðu gaman af því að búa til litlar brúður og módel.
Sýningin var þannig gerð að Stefan tók sögu hvers einstaklings og lét hann eða hana segja söguna sem var sett fram á óvenjulegan máta. Ásamt þessu lét hann koma fram í verkinu ýmsar staðreyndir um Sviss, svo sem um iðnaðinn þar í landi, hve langt væri á milli staða o.m.fl. Hann stillti upp videokameru á lestarvagn sem keyrði í gegnum risastóra leikmynd af svissnesku landslagi sem fólkið hafði búið til. Videoinu var svo varpað upp á vegg á bakvið. Þar með var leikmyndin um leið kvikmyndasett. Til hliðar stóð Stefan sjálfur og stjórnaði tækninni og tónlistinni.
Tímavél á sviðinu
Það var reyndar ein lærð leikkona á meðal hópsins. Hún minnti pínulítið á Heidi og stýrði leikjum sem þáttakendur fóru í, sem aftur stýrði gangi sýningarinnar. Þar með voru ekki allar sýningar alveg nákvæmlega eins en ramminn var samt sá sami. T.d. köstuðu þau stundum teningum og tilviljun ein réði því hver ætti að gera eitthvað. Það er ekki auðvelt að útskýra þetta en t.d. gat verið að gamall maður þyrfti að fara fyrir framan green-screen og hlaupa á hlaupabretti. Á skjáinn fyrir aftan hann sást hvirlfill snúast og hann hljóp hraðar og hraðar á meðan “Heidi” taldi niður. Svo sá maður hús hans og hann sjálfan á myndbandi þar sem hann fór að segja frá. Hann sagði frá lífi sínu, hvernig hann byggi o.s.frv. Þetta varð eins og tímavél. Í annari sýningu hefði kannski einhver annar þáttakenndanna þurft að gera hið sama eða eitthvað annað sem komið hefði upp á teninginn. (Eða hvað?) Þannig voru ýmsar leikreglur sem sköpuðu senur og hreinn unaður að fylgjast með.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=TItHNAHZEwQ [/youtube]Leikhús er meiri snilld en þig grunar
Þetta var ótrúleg upplifun fyrir mig því mér fannst Stefan Kaegi fanga menningu sína á einstakan hátt. Ég hafði einmitt ferðast í alla landshluta, upp í fjöll og inn í dali og fannst ekkert svissneskara en þessi sýning. Það var bæði húmor og alvara í sýningunni sem varpaði fram spurningum um samfélagið. Eins og t.d þeirri hvernig samfélag líti út undir smásjá. Þetta var heimildaleikhús en um leið ævintýri.
Ég er að segja ykkur það. Leikhús getur verið svo miklu meiri snilld en nokkurn grunar! Og það er hægt að gera geggjaða, ótrúlega hluti sem engan hefði órað fyrir… jafnvel með gömlu fólki. Hluti sem ekki er á nokkurn hátt hægt að lýsa með orðum. Ég vona að ég fái að sjá eitthvað svona flott hérna heima innan tíðar.
Fyrir forvitna er HÉR hægt að lesa meira.
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.