Leitin að jólunum er sýnt í Þjóðleikhúsinu áttunda árið í röð.
Þetta bráðskemmtilega barnaleikrit er eftir myndlistarmanninn og rithöfundinn Þorvald Þorsteinsson en hann samdi m.a. bækurnar um Blíðfinn og ævintýrasöngleikinn Skilaboðaskjóðuna.
Sýningin Leitin að jólunum hefur verið vinsæl í mörg ár en hún hlaut Grímuverðlaun sem besta barnasýning leikársins 2006.
Leitin að jólunum hefur verið kallað “aðventuleikrit” og er vel til þess fallið að koma börnum og foreldrum þeirra í jólaskap!
Sýningin býður börnum inn í heim leikhússins og töfra þess. Þarna eru tveir álfar sem eru leiðsögumenn sýningarinnar og fara með áhorfendur aftur og fram í tímann ásamt því að bregða á leik. Velt er fyrir upp stórum spurningum á mælikvarða barnanna, svo sem hvort að jólasveinarnir séu til og hvernig var á jólum í gamla daga?
Leikritið er ekki síst vinælt vegna þess að það hentar stórum sem smáum börnum (sem og foreldrum þeirra). Þarna geta litlu bleyjubossarnir skemmt sér og einnig þessi eldri sem hafa fyrir löngu misst alla trú á jólasveina en þau fá mörg hver trú á leikhústöfra í staðin!
Það sem er líka skemmtilegt við verkið er ekki aðeins vangaveltur um jólin og jólasveina, heldur einnig þessir krúttlegu álfar sem eru leiðsögumenn og leiða leikhúsgestina um Þjóðleikhúsið.
Sýningin er við aðalinnganginn, í Kristalssalnum, uppi á Leikhúslofti og í Leikhúskjallaranum, auk þess sem börnin fá að ganga um baksviðs og sjá þar jólaskreytta ganga Þjóðleikhússins.
Það er ennfremur gaman af tónlist Árna Egilssonar sem setur mikinn og líflegan svip á verkið en leiðsöguálfunum fylgja tveir hljóðfæraleikarar sem spila stemninguna í hverju atriði.
Ég hvet fólk til þess að byrja leitina að jólunum og fara með börnin sín í Þjóðleikhúsið til þess að kynnast jólunum í gamla daga og á okkar tímum! Miðaverði er stillt í hóf og kostar 1800kr. Virkilega skemmtileg sýning!
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.