Við Pjattrófur skelltum okkur í Druslugönguna og eins árs afmæli Kiosk verslunarinnar í góða veðrinu á Laugardaginn var.
Tilgangur Druslugöngunnar er að uppræta þá fordóma sem þolendur kynferðisbrota mega þola og koma ábyrgðinni yfir á gerandann. Setningar eins og:
“Hún ætti ekki að klæða sig svona glyðrulega” “Hún hefði nú átt að drekka minna” eða ” Hún hefði ekki átt að ganga ein heim eða fara upp í bíl með ókunnugum” eru algengar en kolrangar, því þær varpa ábyrgðinni frá gerandanum yfir á fórnarlambið. Það er rangt að nauðga sama hver á í hlut og við hvaða aðstæður, það biður enginn um að láta nauðga sér!
Það er óhætt að segja að það var mjög vel mætt í Druslugönguna (t.a.m. töluvert fleiri en í síðustu 1 Maí göngu) og hún vel heppnuð í alla staði. Sérstaklega þótti mér vænt um hversu margir karlmenn mættu og sýndu þessu málefni stuðning, enda er svo afskaplega lítill hluti karlmanna kynferðisbrotamenn og það er þeirra réttur að vekja athygli á að þeim finnst alveg jafn rangt að nauðga og okkur.
Eftir Druslugönguna skelltum við okkur í eins árs afmæli verslunarinnar Kiosk.
Kiosk er samstarf 9 íslenskra hönnuða sem selja hönnun sína í búðinni og skiptast á að afgreiða.
Einstaklega vel heppnuð og skemmtileg búð sem að mínu hefur að geyma rjómann af íslenskum tískuhönnuðum . Þau í Kiosk eru líka mjög dugleg að halda partý og eru t.a.m með freyðivín og gleði alla laugardaga, það var auðvitað sérstaklega skemmtilegt þar á þennan dag þar sem Diva de la Rosa (Rósa söngkona Feldberg) þeytti skífum og fólk dillaði sér með freyðivín og verslaði fallegar flíkur í fallegri verslun.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.