Á nýju ári ákvað ég að strengja áramótaheit og lofa sjálfri mér að fara á dansnámskeið til að læra loksins að dansa.
Þar með rættist gamall draumur og martröð líka ef út í það er farið. Já, mamma skráði mig auðvitað í dansskóla þegar ég var lítil. Einu sinni í viku mætti ég með spariskó í plastpoka í danstímana og kveið þess allra mest að þurfa að dansa við stráka með sveitta lófa. Fyrir rest varð þetta mér svo mikil pína að ég þverneitaði að mæta og dansskórnir hafa rykfallið uppi á hillu allar götur síðan.
Þar til nú að áhuginn kviknaði á ný. En þá vandaðist málið… nú vantaði mig nefnilega dansherrann til að fara með mér og ég bölvaði sjálfri mér í hljóði fyrir að hafa ýtt öllum fínu herrunum burt hér í den. Þótt mér sé margt til lista lagt – tel ég mig ekki ráða við að dansa klassíska latínó dans við sjálfa mig… eða því trúði ég að minnsta kosti. Sjálfsagt eru margar konur í sömu sporum, þær dreymir um að dansa en eru kannski einhleypar eða þá að maðurinn þeirra hefur ekki áhuga á dansi og því fara þær ekki í dans.
Ég hef heyrt fullt af sögum af pörum sem kynnist í dansi og auðvitað er það miklu sætara en að kynnast á skemmtistað í ölæði. Málið er að ég myndi bara aldrei fara ein í dansskóla. Ein í bíó, ein út að borða eða ein á kaffihús – ekkert mál en aldrei fyrir mitt litla líf myndi ég dansa ein við sjálfa mig þegar allir hinir eru með dansfélaga. Ég lagði því málið í salt í smá tíma þar til einn morguninn þegar ég var að drekka te-ið mitt að ég rak augun í auglýsingu um LATIN-fitness hjá NordicaSpa.
“Þú þarft ekki dansherra hjá okkur,” stóð í auglýsingunni.
“Snilld,” hugsagði ég og ákvað strax að þetta væri málið. Á mánudaginn tók ég svo aftur fram gömlu spariskóna og skellti mér í fyrsta tímann í þessu fjögurra vikna námskeiði þar sem allir mæta einir til leiks og dansa sjálfir eftir eigin getu og takti. Að þetta skyldi ekki hafa verið kennt á Íslandi er bara synd… því ég skemmti mér konunglega í þessum fyrsta tíma með öllum hinum sólódönsurunum!!
Frábært að læra nú klassíska suður ameríska dansa eins og samba, cha-cha, rúmbu, jive, salsa og mambó. Ég sem hélt að þetta yrði bara létt hreyfing en skjátlaðist því dansinn var heilmikil brennsla og tíminn byggður upp með fitness ívafi. Lögin eru skemmileg og það er gaman að hreyfa sig í takti við tónlistina. Svo er finnst mér þetta vera góð tilbreyting frá hefbundinni líkamsrækt í formi magaæfinga, lóðatoganna og hlaupum á rafmagnsbrettum.
Lestu meira um námskeiðið mitt hér: http://www.nordicaspa.is/latin-fitness
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.