Ég bjó í nokkur ár í Kaupmannahöfn. Þar var klám lögleitt árið 1968 en daninn hefur alltaf verið mjög frjálslyndur og slakur þegar kemur að kynferðismálum.
Þar sem klám var og er löglegt í Köben var ekkert að stoppa búðarfólk í að raða klámblöðum upp um allt í sjoppunum sínum.
Ég man að mér fannst alltaf svo skrítið að sjá plöstuð klámblöð í rekkanum fyrir framan búðarborðið, einmitt í mjög heppilegri augnhæð fyrir svona 3-7 ára einstaklinga.
Ég var ekki orðin mamma á þessum árum en mér fannst samt alltaf truflandi að sjá þetta. Lítill krakkaheili á ekki að virða fyrir sér svona myndir. Hann verður bara ringlaður af því.
Núna er klám einhvernveginn komið út um allt og sérstaklega í hina klámvæddu dægurmenningu. J-Lo með rumpinn á fleygiferð eins og hlaup í roki, Kim Kardashian olíusmurð með reðurtákn á hausnum, þetta er allt komið út í tóma steypu og í skemmtiefni og hluti sem ná jafnvel meira til barna en fullorðinna.
Nýjasta dæmið eru gallabuxurnar frá Alexander Wang en sá hinn sami var að ‘lánsa’ nýrri línu með HM. Litlu stelpurnar okkar 7-14 ára, dýrka föt úr HM. Og heilinn reiknar: Wang = HM, Wang = Allsber olíusmurð kona að koma við klofið á sér. HM=hvað??
Samtímis er allt vaðandi í alvöru klámi á netinu. Þá meina ég ekki ofangreindu klámefni úr auglýsinga og poppheiminum heldur bara harðkjarna fullorðinsefni.
Þetta fullorðinsefni er ekki lengur innpakkað í plast einhversstaðar á bakvið í búðum. Það þarf enginn að koma eldrauður í framan og biðja um “bláu möppuna” á videoleigunni. Neibb… Krakki slær óvart inn Hotmale í staðinn fyrir Hotmail (gamalt dæmi) og við henni blasir harðkjarna hommaklám á google. Það er af sem áður var.
Mér finnst mjög áberandi hvernig klámvæðingin ruglar nútímabörnin í kringum mig. Þau virðast til dæmis ekki alveg átta sig á að líkamar eru allskonar og að nekt er ekki alltaf tengd kynlífi.
Að nekt er bara eðlileg og fín og fólk er stundum nakið eða hálfnakið án þess að það hafi eitt eða neitt með kynlíf að gera. Maður þarf að skjóta þessu að þeim um leið og maður útskýrir að Kim sé eflaust ágætis kona en að það sé ekkert sérstaklega gáfulegt múv að ná sér í athygli með því að sperra sig berrössuð framan á blaði.
Stelpukrakkarnir í kringum mig eru nefninlega ringlaðar þegar kemur að þessum efnum, yfir sig hneykslaðar, sjokkeraðar og pirraðar. Maður veit í raun ekkert hvað er hægt að gera. Banna þeim að fara á netið, horfa á Youtube, fletta blöðum? Nei varla. Þetta er klemma.
Sjálf er ég alin upp undir áhrifum frá hippamenningunni og fræddist um kynlíf úr hinni mjög svo opinskáu bók: Svona verða börnin til.
Ég man ekki til þess að hafa séð klám í auglýsingum þegar ég var krakki.
Ég sá nekt; til dæmis í auglýsingunni fyrir Fidji ilminn sem sagði “Konan er eyland” og “Grohe er vatn og vellíðan”… en ég sá ekki klám.
Það var reyndar margt sem var látið viðgangast hér áður fyrr sem við myndum hreinlega tryllast yfir í dag. Annarskonar kvenfyrirlitning í auglýsingum og hitt og þetta rugl.
Í rauninni finnst mér heimurinn fara batnandi fyrir utan þessa klámvæðingu sem hefur ekki uppbyggileg eða heilbrigð áhrif á litla heila sem eru að fullorðnast og mótast.
Svo er það auðvitað alltaf álitamál hvað er klám og hvað er erótík. Og ef það er erótík… á hún þá erindi við krakka? Nei, varla? Erótískar barnabækur? Eh. Nei.
Hvað er hægt að gera? Hugsum í lausnum.
Það er ekki mikið hægt að gera í þessu en maður gerir það sem er hægt.
Ég fer til dæmis reglulega í gegnum öll tölvutæki á heimilinu og sé til þess að restricted stillingarnar séu réttar. Þetta er jafn mikilvægt og að vara börnin við rándýrunum sem reyna að nálgast þau í gegnum samskiptamiðlana.
Ég tala við krakkana og segi þeim að þetta sé bara ruglað lið í útlöndum að þau muni eflaust aldrei þekkja neinn sem taki upp á svona sperringi. Þau þurfi ekki að spá frekar í þessa fótósjoppuðu rugludalla.
Svo legg ég áherslu á að líkamar séu allskonar en að það sé ekki hollt að vera of grannur eða of þungur. Bara í miðjunni. Allt best í hófi. Gera bara eins og landlæknir segir og alls ekki líta á þessa útlensku strípalínga sem eitthvað sem maður eigi að hafa til fyrirmyndar í lífi sínu. Þetta sé bara undarlegur skrípóheimur sem ekkert sé að marka.
Ef það er meira hægt að gera þá þigg ég allar ábendingar í kommentum hér. Mér þætti gaman að vita hvernig aðrar mömmur (og pabbar) tala við börnin sín um þessi mál.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.