Sem pjattrófa og fagurkeri hef ég alltaf haft gaman af fallegum hlutum. Stundum rennur þó á mig örlítil græðgi, það er til svo mikið af fínum flíkum og fallegum hlutum í búðum bæjarins og ég þarf augljóslega að eignast það ALLT, takk fyrir pent!
Sem betur fer er þetta ekki viðvarandi ástand hjá mér, og milli þess þyki ég nokkuð nægjusöm. Með árunum (þau hrannast alveg upp, árin mín) hef ég lært að kunna meta hlutina mína betur og er ég afar þakklát fyrir þann nýtilkomna eiginleika. Það er nefnilega mikilvægt að þekkja sín neyslumörk.
Nú er ég ekki að meina að bráðnauðsynlegt sé að skammta klósettpappírinn (eitt bréf fyrir númer eitt, og tvö bréf fyrir númer tvö) en sóun á hlutum sem kosta okkur peninga fara æ meir í taugarnar á mér. Um daginn komst ég að einu fyrirbæri sem hneykslaði mig svo hrikalega að ég var skrefinu frá því að breytast í Jóakim Aðalönd.
Í Svíþjóð, þar sem ég bjó þykir sparsemi hinn mesti kostur. Það kom mér því á óvart þegar ég heyrði af Vaskning & Traskning-tískunni.
Margir kannast kannski við steríótýpu pabbastrákana og stelpurnar í Stokkhólmi sem labba um með bleikar golfpeysur bundnar yfir axlirnar og heita hefðarnöfnum. Þau eru hallærisleg en mér fannst þau líka bara fyndin, litlir kjánabangsar með dýr sólgleraugu í eilífum meting um hver átti mest af óþarfa prjáli.
Kaupa og hella því niður
Það allra heitasta í dag hjá þessum krökkum er að hópast saman á fínustu börum borgarinnar, panta dýrustu kampavínsflöskuna og í stað þess að drekka hana eða hella sjampói yfir hvort annað þá opnar barþjónninn flöskuna og hellir svo öllu kampavíninu ofan í vaskinn.
Þeim þykir það sumsé bæði merkilegt og flott að geta keypt eitthvað svona dýrt og fínt og síðan hent því samstundis. Mér fallast nú bara hendur.
“Vaskning” þýðir sem sagt á sænsku að hella niður fínu kampavíni og traskning er þegar þú labbar inn á barinn með öllum sólbrenndu pjakkavinum þínum, pantar þar fínustu kampavínsflöskuna….og skilur hana eftir óopnaða! Því þú ert svo fínn og ríkur og flottur og smart. Og allir verða samstundin skotnir í þér, (eða þannig).
Kaupa meira, meira, meira
Eftir að hafa lagst í rannsóknarvinnu yfir Vaskning fyrirbærinu komst ég svo að frábærlega fyndnum vinkli á þessari annars fáránlegu iðju. Segjum svo að þú sért á snekkjunni þinni og þú ert búinn að hella niður öllu kampavíninu þínum og ,„vinir þínir“ eru ólmir í meira vask og trask.
Þá stendur til boða snilldar þjónusta! Þú átt þann möguleika að fara á netið í spjaldtölvunni þinni, panta og borga þar fyrir einhverja gæða freyðivínsflösku, svo getið þið snekkjupollarnir setið og fylgst með manni einhverstaðar í heiminum í gegnum Skype opna flöskuna þína og hellt henni niður fyrir þig. Þægilegt!
Yfirleitt þegar mér finnst eitthvað svona óþægilega rangt er betra að bara gera grín að því og minna sjálfan sig á það hvað maður er heppinn að vera heill andlegri heilsu og upplifa blankheit endrum og sinnum. Eða, ef maður er svo lánsamur að eiga alltaf afgang, að njóta þess hóflega og smekklega.
Ef þér finnst svona háttarlag heillandi (ég er ekki að dæma ef einhverjum finnst þetta smart, jú samt smá) eða bara bráðfyndið þá getið þið líka fylgst með álíka útúrfjármögnuðum dekurdrósum sem hafa ekkert að gera, á Rich Kids of Instagram.
Þar sýna þau umheiminum hvað þau eru rík og eiga mikið af allskonar dóti sem kosta meira en veltan hjá meðalstóru fyrirtæki.
Ef þú færð algjört æði eru þættirnir My Super Sweet Sixteen á MTV líka ágætis kinnhestur.
Þar er fylgst með krökkum sem halda upp á sextán ára afmælið sitt og fá hjartáfall úr frekju útaf því að sportbílinn (sem þau eru ekki nógu gömul til að keyra) var ekki í réttum gylltum tón. Mig hryllir við en ég hlæ líka heil ósköp.
Mikið er gott að vera eðlileg, eða svona næstum-því. Njótum þess!
Anna Margrét er fædd í Reykjavík árið 1987, en hefur alið manninn í Svíþjóð, Suður Ameríku og víðar.
Anna er krabbi, og þykja þeir hinir kátustu. Tíska, förðun, jafnrétti, skrif og ferðalög um Afríku eru nokkur af hennar áhugamálum.