Um daginn skrifaði ég pistil sem lýsti því hvernig ung stúlka, Natalie Werner, hafði heyrt um mann frá Úganda að nafni Joseph Kony og gert það sem hún gat til að stöðva hann.
Þessi maður hefur í yfir 25 ár stolið börnum, afskræmt þau, myrt, þjálfað þau til þess að myrða (jafnvel sína eigin fjölskyldumeðlimi) eða hneppt ungar stúlkur í kynlífsþjónustu.
Natalie hafði með hugsjónarstarfi sínu fyrir samtökin “Invisible Children Project” átt stóran þátt í því að ná áheyrn stjórnvalda Bandaríkjanna sem í byrjun sögðust ekkert geta við þessu gert. En eftir þrotlausa vinnu Natalie og fleiri ungmenna náðu þau því fram, í október 2011, að bandarísk stjórnvöld myndu senda hundrað hermenn til Úganda og hjálpa þarlendum yfirvöldum að handsama þennan hræðilega mann. Pistilinn má lesa HÉR.
En Joseph Kony hafði veður af átakinu. Hann breytti um stefnu í “hertaktík” og fer nú huldu höfði. Eftir að þessar ungu hetjur hafa náð svona langt er erfitt að vita til þess að þessi maður, ef mann skyldi kalla, leiki enn lausum hala. Alþjóðleg aðstoð við yfirvöld Úganda til þess að handsama Kony gæti verið afturkölluð hvenær sem er!
Ráðherrar og lögfræðingar eru sammála um að það verði að handsama Kony á þessu ári, ef pressan minnkar mun Kony hafa tíma til þess að stækka her sinn. Fólk verður að pressa á þetta málefni og það má ekki fara framhjá neinum!
- Til þess að handsama Kony þarf her Úganda að finna hann!
- Til þess að her Úganda geti fundið hann þarf herinn að hafa nauðsynlega tækni og kunnáttu.
- Til þess þurfa þau aðstoð bandaríska hersins.
- Til þess að bandarískir aðstoðarmenn komi til hjálpar þurfa bandarísk yfirvöld að samþykkja veru þeirra þarna og senda þá til hjálpar.
- Til þess að bandarísk yfirvöld geri það þurfa þau að trúa að það sé nógu mikið af fólki sem vill láta stöðva Kony.
PLANIÐ sem “Invisible Children Project” er með á prjónunum er að gera nafn Joseph Kony eins sýnilegt og mögulegt er. Þannig geta samtökin beitt stjórnvöld þrýstingi og vakið athygli í alþjóðasamfélaginu. Allt til þess að ekki verði gefist upp á leitinni að Kony og auðvitað til þess að bjarga tugþúsundum barna úr ánauð.
Hvernig gat slíkur hryllingur farið framhjá fólki í yfir 25 ár? Ég hvet alla eindregið til þess að gefa sér tíma til þess að horfa á þessa heimildarmynd um Joseph Kony.
Ég mun fylgjast spennt með því hvort eitthvað muni gerast þann 20. apríl hér á landi… hvort það gildi nýjar reglur í heiminum á tækniöldinni eða ekki! (Þær sem vilja skilja hvað ég á við með því verða að horfa á myndbandið).
Eva er menntuð sem sviðslistakona úr Fræði og framkvæmd frá Listaháskóla Íslands og menningarmiðlari úr Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Eva er líka mikill fagurkeri enda fædd í vogarmerkinu.