Hér eru tvær dásamlegar upptökur, eða hreint ótrúleg myndbönd frá gamla Íslandi sem enginn áhugamanneskja um íslenska menningu má missa af…
Fyrra myndbandið eru hljóðlaust og tekið í Reykjavík árið 1926.
Þá voru 20.000 manns búsettir í borginni og einnig störfuðu þar þrír lögregluþjónar!
Á gamla Íslandi ríða glæsimenni um götur borgarinnar með regnhlífar eins og ekkert sé sjálfsagðara. (Megum við biðja um fleiri svona í nútímanum, takk!!)
Þarna eru líka ungar konur með nýlagað hárið, brosandi og fallegar. Aðrar eru að þvo þvotta með vinnulúnum höndum í Laugardalum.
Hraustleg börn á Austurvelli stilla sér upp fyrir kvikmyndatökumann. Þarna sést Eimskipafélagshúsið og stendur það alveg við sjávarmálið en á þessum tíma var ekki búið að fylla upp í höfnina.
Allir bæjarbúar eru samankomnir niðri á höfn til að taka á móti kvikmyndagerðafólkinu og ljóst er að það var stórviðburður að fá þessa útlendinga í bæinn. Mér finnst raunar enn merkilegra að sjá forfeður mína öllum þessum árum seinna.
Seinna myndbandið er líka mjög skemmtilegt en það er tekið rétt eftir 1950. Það er kvikmyndagerðarmaðurinn Hal Linker sem er við stjórn og aðstoðarkona hans er Halla, seinna Halla linker en þau rugluðu saman reitum eins og frægt varð. Þarna er líka gullfalleg flugfreyja, Margrét Guðmundsdóttir frænka mín.
Margrét heitin var flugfreyja hjá Loftleiðum og var send til London í einskonar flugfreyjukeppni. Það voru fulltrúar flugfélaga 14 eða 15 landa Evrópu og Bandaríkjanna sem kepptu í starfshæfni og Margrét bar sigur úr býtum.
Myndbandið allt er frábært, það er sérstaklega gaman að sjá umfjöllun um jarðvarma og hvernig er lögð áhersla á að Íslendingar geti verið sjálfbærir með margt, til dæmis grænmeti og ávexti sem rækta megi í gróurhúsum hérlendis.
Núna, rúmlega hálfri öld síðar, er ótal margt sem vekur til alvarlegarar umhugsunar þegar horft er á þetta myndskeið.
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.