Í fyrsta skipti sem ég sá myndband Lönu Del Rey við lagið Ride fannst mér það mjög sorglegt en samt sem áður fallegt.
Eftir að hafa horft á myndbandið nokkrum sinnum fór ég að sjá athugasemdir við þær með hugtaki sem ég áttaði mig ekki alveg á hvernig ætti við þetta myndband, menningaraðlögun (mjög gróf þýðing á „cultural appropriation“).
Myndbandið hennar Lönu þar sem hún sést með risastóran og fallegan fjaðrahatt á höfðinu var hins vegar bara byrjunin og nú virðist ég sjá þetta hugtak út um allt.
Reiðir minnihlutahópar hafa verið að láta æ meira í sér heyra undanfarin ár vegna þess að hinn ráðandi kynþáttur, við hvíta fólkið, erum að nota þeirra trúarlegu og menningarbundnu tákn sem tískufatnað og fylgihluti og til að sýna öllum hvað við erum „hipp og kúl“ og fjölmenningarleg.
Í fyrstu skildi ég ekki alveg af hverju þessi læti voru, höfuðfatið hennar Lönu var fallegt, og höfuðfatið sem Karlie Kloss bar í Victoria‘s Secret sýningunni árið 2012 var líka fallegt og Indjánar eru fallegir og æðislegir svo af hverju ekki að kynna og halda þeirra menningu í heiðri?
Eftir að hafa lesið nokkrar greinar um menningaraðlögun áttaði ég mig svo á því að ekkert við það hvernig við íbúar í hinum vestræna heimi klæðumst hefðbundnum Indjánaklæðnaði heldur upp á menningu indjána.
Ég persónulega þekkti ekkert til þess af hverju Indjánahöfðingjar voru með þessa störu „fjaðrahatta“ fyrr en ég las mér til um það (vegna forvitni minnar um menningaraðlögun ekki vegna þess að Lana var svo flott), en þessi höfuðföt hafa mikla merkingu og aðeins útvaldir fá að bera þá á meðal Indjána svo það er frekar mikil óvirðing þegar hvíti maðurinn, maðurinn sem þurrkaði nær algjörlega út menningarheim Indjána fer að bera þessi höfuðföt bara upp á grínið og til að vera hipp og kúl.
Við kunnum fá að meta þessa hluti vegna merkingar þeirra og áður en við lærum það ættum við að sýna öðrum menningarheimum og þjóðflokkum þá virðingu að gera ekki bara það sem okkur sýnist við þessa hluti bara af því þeir fara vel við nýja jakkann okkar eða eru í stíl við flotta kjólinn sem við vorum að fá okkur.
Menningaraðlögun á ekki bara við um Indjánahöfuðfötin heldur einnig um marga aðra menningar- og trúartengda hluti sem við höfum tileinkað okkur að bera án þess að vita nokkuð um merkinguna á bak við þá.
Hér að neðan eru nokkrar myndir af frægu fólki og auglýsingum sem hafa verið gagnrýndar:
[youtube]http://youtu.be/2vLuSBO7fTw[/youtube]
Selena Gomez var gagnrýnd fyrir að vera með Bindi á enninu og fyrir atriði og klæðnað sem virðist vera sóttur í indverskan menningarheim.
Lady Gaga hefur aldrei verið þekkt fyrir að fara troðnar slóðir í fatavali og flestir eru hættir að kippa sér upp við klæðnað hennar. Mörgum var þó öllum lokið þegar hún fór að klæða sig í búrku. Talið er að hún hafi gert það til að kynna lagið sitt Aura sem upprunalega bar nafnið Burqa en þar segir meðal annars: “I’m not a wandering slave, I am a woman of choice. My veil is protection for the gorgeousness of my face”. Fólki þótti þar vera gert lítið úr trúarlegum ástæðum á bak við það að konur klæðast búrku.
Það er náttúrulega ekki einu sinni hægt að deila um það hvort þessi búningur sem Heidi Klum klæddist í árlega Hrekkjavökupartýinu sínu árið 2008 er flottur eða ekki. En þrátt fyrir að vera flottur voru margir hindúar sem reiddust yfir honum. Vissulega gæti verið að Heidi kynni alveg svakalega vel að meta indversku gyðjuna Kali, en það er ólíklegra því þegar hún var spurð út í búninginn hafði hún þetta að segja: “Ég elska hana af því hún er svo ill og drap allt þetta fólk og það hengu fingur á henni og lítil samanskroppin höfuð”. Svo hún valdi að klæða sig upp sem þetta heilaga trúarlega tákn af því hún “lúkkar kúl”.
Harry Styles setti þessa mynd af sér á Instagram og Twitter um daginn og það varð allt brjálað og One Direction aðdáendur skiptust í tvær fylkingar, þó flestir væru sammála um að auðvitað væri ekki til illt bein í stráknum og hann hefði ekki meint neitt illt með þessu heldur væri hann bara svo svakalegur hipster. Harry staðfesti það svo með því að eyða myndinni út samdægurs og tweeta svo: “But don’t you take my monkey”. Sem á líklega að þýða eitthvað merkingarfullt og mikilvægt.
Katy Perry er með þeim duglegri þegar kemur að því að klæða sig upp líkt og tíðkast í öðrum menningarheimum en hennar eigin. Núna seinast var hún gagnrýnd fyrir myndband sitt fyrir lagið Dark Horse þar sem vonbiðill hennar sem er með Allah hálsmen brennur upp til agna og margt anna skemmtilegt gerist. Hún fékk þó líka gagnrýni í nóvember í fyrra þegar hún flutti lag sitt Unconditionally á MTV verðlaunahátíðinni klædd líkt og geisha og með alls kyns asísk áhrif, ýmist frá Kína eða Japan, í sviðsmyndinni. Það þótti ekki neitt svakalega kúl að blanda þessum tveimur menningarheimum saman, svona sérstaklega ekki eftir að hún lýsti því yfir í Jimmy Kimmel árið 2012 að hún væri svo heltekin af japanskri menningu að hana langaði til að flá Japani og klæðast húðinni þeirra eins og hún klæðist Versace…vel gert Katy…
No Doubt tóku myndbandið við lag sitt Looking Hot út af YouTube eftir að það brjálaðist allt yfir sambandinu sem sýnt var í myndbandinu á milli indjánakonu og kúreka. Það þótti víst algjör óþarfi að gera sambandið þar á milli eitthvað rómantískt þar sem það er þekkt staðreynd að indjánar og indjánakonur urðu fyrir miklu ofbeldi af hendi hvítra manna á landnámstímabilinu í Ameríku.
Gwen Stefani hefur áður verið gagnrýnd fyrir svipaða hluti, líkt og þegar hún var oft með Bindi á enninu á tíunda áratug seinasta aldar og þegar hún var alltaf með fjórar Harajuku stelpur í eftirdragi í kringum útgáfu sólóplötunnar sinnar Love.Angel.Music.Baby.
Bindi var aðalaukahluturinn á Coachella í ár. Hér má sjá Selenu Gomez, Söru Hyland, Kylie Jenner og Vanessu Hudgens með Bindi. Eitthvað hefur verið deilt um það hvort það sé í raun og veru það slæmt að fólk sem ekki er hindú skreyti sig með Bindi þar sem hindúatrúar fólk geri það líka án þess að þekkja hinu eiginlega merkingu á bak við Bindi.
Lara Stone með blackface…ég held að ég geti bara alveg fullyrt það að ef þú ætlar einhvertíma að vera með blackface þá er besta hugmyndin bara sú að sleppa því. Það er aldrei fyndið og það er alltaf bara niðurlægjandi fyri þig.
[youtube]http://youtu.be/LiaYDPRedWQ[/youtube]
Það er ekki nógu slæmt að lagið er samið af Chadd Kroeger og sungið af Avril Lavigne, nei þau þurftu að fara einu skrefi lengra og hafa það smá móðgandi líka.
Johnny Depp sem Tonto í myndinni Lone Ranger…bara nei…fyrst Hollywood gat fundið indjána til að leika Tonto í The Lone Ranger fyrir 60 árum síðan þá ættu þeir að geta fundið einhvern til þess árið 2013.
Það getur vel verið að gagnrýni á menningaraðlögun sé stundum tekin of langt en þetta er samt sem áður umræða sem þarf að vera uppi. Ég efast um að nokkurt okkar vilji gera lítið úr menningu minnihlutahópa bara af því við höfum gaman að tísku og viljum kannski klæða okkur eins og uppáhaldsstjörnurnar okkar. Gagnlegasta þumalputtareglan sem kemur að þessu er eflaust: Ef þú efast, slepptu því þá bara.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.