Reykjavik
06 Dec, Thursday
2° C
TOP

MENNING: Hvað eru margar konur í þessari kvikmynd?

Ég heyrði í fyrsta skipti um Bechdelstaðalinn (The Bechdel Test) á síðasta ári og hálfskammaðist mín fyrir að hafa ekki heyrt neitt um hann fyrr.

Þetta próf varð fyrst þekkt eftir að Alison Bechdel fjallaði um það í teiknimyndasögunni sinni Dykes To Watch Out For (sjá mynd) og snýst í rauninni um þrjár meginreglur þegar kemur að kvikmyndum.

 1. Eru fleiri en tvær kvenpersónur (sem eru nefndar á nafn) í kvikmyndinni?
 2. Tala þessar tvær persónur við hvora aðra?
 3. Tala þær við hvora aðra um eitthvað annað en karlmann sem kemur söguþræðinum við?

Þó að þetta sé auðvitað engin vísindaleg prófun á því hvort kvikmyndir séu góðar eða ekki þá er þetta samt sem áður forvitnilegt próf.

Einungis 52% kvikmynda standast þetta próf sem er nokkuð lágt hlutfall. Ég fann engar tölur yfir andstæðuna en flestir ættu að geta ímyndað sér að það hlutfall sé líklega vel yfir 90% en það er þó bara ágiskun.

Oft er talað um að þetta sé femínískur mælikvarði á bíómyndir eða að myndir sem standist prófið séu kvenréttindalega sinnaðar en það er þó ekki með öllu rétt. Það eru til margar myndir sem ég, og líklega margir fleiri femínistar, myndu mæla eindregið með sem standast ekki bechdel prófið og það eru til margar myndir sem ég myndi engan vegin mæla með sem standast prófið en það dregur þó ekki úr því að fróðlegt er að hafa þetta próf á bakvið eyrað þegar horft er á kvikmynd.

Bæði eins og það er í sinni upphaflegu mynd og líka öfugt,  til samanburðar. Einnig er fróðlegt að hafa það á bakvið eyrað þegar kemur að öðrum þjóðfélagshópum, hve marga svertingja sjáum við t.d. í myndum í dag tala saman án þess að það sé um hvíta manneskju?

Til  gamans er hér listi yfir 10 síðustu myndirnar sem ég hef farið á í bíó:

 1. The Amazing Spider-man – stenst prófið með naumindum en ein kona (sem er þó bara nefnd á nafn að eftirnafni) segir annarri að koma inn, samtalið tekur líklega ekki meira en 10 sekúndur af 136 mínútna mynd og hefur í raun engin tiltakanleg áhrif ásöguþráðinn.
 2. The Intouchables – stenst ekki prófið, fleiri en ein kvenpersóna er nafngreind en þær tala aldrei saman.
 3. Snowhite and the Huntsman – stenst prófið, Mjallhvít og drottningin tala oftar en einu sinni saman um eitthvað annað en karlmann.
 4. The Dictator – Stenst ekki prófið, það eru tvær kvenkyns persónur í myndinni sem eru nefndar á nafn en þær tala aldrei saman.
 5. The Five-Year Engagement – Stenst ekki prófið, þó að aðalkvenpersónan og samstarfsfélagi hennar tali saman um sálfræðirannsóknir er það alltaf í samtali sem karlmenn taka líka þátt í.
 6. American Reunion – Stenst ekki prófið.
 7. Iron sky – Stenst prófið, Aðalkvenpersónan og forsetinn (kona) tala oftar en einu sinni um eitthvað annað en karlmann.
 8. The Hunger Games – stenst prófið, aðalpersónan er kvenkyns og hún talar oft við aðrar kvenpersónur um eitthvað annað en karlmenn.
 9. Safe House – Stenst ekki prófið, í myndinni eru tvær kvenkyns persónur en þær eru staðsettar í sitthvorri heimsálfunni og tala aldrei saman.
 10. In Time – Stenst ekki prófið, það eru fleiri en tvær kvenkyns persónur sem nefndar eru á nafn en þær tala aldrei við hvora aðra.
  (Lista yfir fleiri myndir má sjá HÉR)

Þó þetta sé auðvitað ekki mjög áreiðanlegar niðurstöður – bíóaðsókn einnar manneskju – þá er þetta samt sem áður skemmtilega líkt heildartölunum um það hve margar myndir standast Bechdel prófið, en 60% þessara mynda standast ekki prófið.

Það er engan vegin hægt að dæma myndir sem standast ekki prófið sem lélegar myndir og það er ekki einu sinni hægt að dæma þessar myndir sem ófemínískar, því oft sýna þessar myndir sterkar kvenpersónur þó að samskipti þeirra við aðra kvenmenn sé í lágmarki. Þetta próf er samt sem áður eitthvað fróðlegt og forvitnilegr til að hafa á bakvið eyrað og kannski þá sérstaklega þegar kemur að barnamyndum. Fljótt á litið er hlutfallið þar svipað og á  öðrum myndunum og jafnvel verra en þar er jafnvel mikilvægara að sýna jafnara kynjahlutfall þar sem það er mögulegt.

Sem mikil áhugamanneskja um kvikmyndir finnst mér vera kominn tími til þess að þetta breytist. Vissulega verða alltaf til kvikmyndir sem ekki standast prófið og það er ekkert að því í raun og veru, en á meðan myndir sem snúast um konur og eru ætlaðar konum eru rétt svo að standast prófið í gegnum nokkurra sekúndna löng samtöl þá er eitthvað virkilegt að kvikmyndabransanum.

 

Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu. Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.