Á eilífum þeytingi mínum um Fésbókina fögru hef ég orðið vör við það að jákvæðni er orð sem er yfirleitt slett fram í einhverju nostalgíukasti.
Mælandi þjáist yfirleitt af fortíðarþrá og er að minnast betri tíma þegar jákvæðni var enn brúkuð sem daglegur gjörningur. Ég var við það að verða úrkula vonar um að jákvætt komment myndi nokkurntímann líta dagsins ljós þegar ég hnaut um síðu sem heitir Humans of New York (HONY) á Facebook.
HONY er síða sem er haldið úti af manni sem heitir Brandon.
Hugmyndin er einföld– rölta um stræti New York, smella myndum af random fólki og fá smá baksögu. Ekki flókið! En Brandon virðist hafa þá náðargáfu að snerta kjarna manneskjunnar án fyrirhafnar, og allar myndirnar og baksögur þeirra eru svo ótrúlega “real” að oft finnst mér ég ætti að geta rétt út höndina og strokið viðmælanda undir vanga. Ég hef séð nokkrar kópíur af síðunni- tildæmis Humans of Reykjavík og eru þær allar hinar næsustu síður, en að öllum þessum dóttursíðum HONY ólöstuðum, þá einhvernveginn er Brandon bara með þetta…. Hann nær að skilja hismið frá kjarnanum!
ALLIR GLAÐIR
En það sem mér finnst þó það sérstakasta við HONY eru kommentin! Við hverja einustu mynd má finna nokkrar þúsundir kommenta og er alveg algjör undantekning að hægt sé að finna neikvætt komment- og er það algjörlega orðið einsdæmi í dag! Inni á þessari síðu er samúð, samkennd og hluttekning! Þarna inni má finna ráðleggingar, óskir lesanda um að viðkomandi gefist ekki upp í lífsbaráttunni, og fólk sem teygir sig fram og réttir hjálparhönd þeim sem þurfa á að halda!
Í þeim veruleika sem við lifum í, þar sem tilvera okkar er meira eða minna nettengd, og við lifum að hluta til í gegnum internetið þar sem allt er látið flakka og neikvæðni virðist vera ríkjandi straumurinn, þá kemur HONY eins og hlýr andvari. Það að fylgja þessari síðu hefur endurheimt trú mína á mannkynið og það er ekkert sem startar deginum betur hjá mér en að stökkva aðeins inn á Humans of New York, lesa nokkur komment og vita það að fólki er almennt ekki sama- jafnvel þó allt bendi til annars!
Hérna fyrir neðan eru aðeins örfá dæmi af svo ofsalega mörgum! Ég ráðlegg öllum að kíkja inn á Humans of New York, það er gott fyrir sálina!
Hrafnhildur, eða Krummi, er mamma, förðunarfræðingur, leikkona, kærasta, systir, dóttir, handverkskona og listakona svo fátt eitt sé nefnt. Ung flutti hún frá Sauðárkróki til Reykjavíkur þar sem hún lærði förðunarfræði en seinna flutti hún til Alabama, USA þar sem hún lærði leiklist. Eftir nokkur ár í Bandaríkjunum lá leið hennar aftur til Sauðárkróks og hún er því rödd landsbyggðarinnar á meðan pjattrófa. Hrafnhildur er fædd 21. febrúar árið 1980 og er fiskur.